Innlent

„Vona að sagan hennar verði til þess að forða einhverjum frá því að prófa fíkniefni og enda á þennan hræðilega hátt“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Þórhildur Þorkelsdóttir skrifa
Móðir 17 ára stúlku sem lést í júní í fyrra eftir að hafa tekið inn eina og hálfa E-töflu vonar að saga dóttur sinnar nýtist til að bjarga börnum og ungmennum í svipaðri stöðu, það er þeim sem eru með fjölþættan vanda og lenda utanveltu í kerfinu. Taka þurfi betur utan um þau og viðurkenna þau á þeirra eigin forsendum.

Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir var fædd 8. mars 1998 og er af fjölskyldu sinni lýst sem góðhjartaðri og kröftugri stúlku með sterka réttlætiskennd en hún varð snemma utanveltu bæði félagslega og í skólakerfinu. Hún var ung greind með ofvirkni og athyglisbrest, og eftir að hafa orðið fyrir grófu einelti í grunnskóla bönkuðu andleg veikindi upp á.

Fékk aldrei athygli fyrir það hvað hún var klár

Kristín Frímannsdóttir, móðir Ingibjargar Melkorku, segir athyglisbrestinn meðal annars hafa birst í því að dóttir hennar átti erfitt með að klára próf.

„Hún byrjaði vel í prófunum en svo var eins og hún hætti og fór að gera eitthvað annað. Þá virtist athyglisbresturinn taka yfir en hún fékk aldrei athygli á það hvað hún var klár heldur var meira horft á það sem hún gerði rangt,“ segir Kristín.

Sumarið eftir 6. bekk þegar Ingibjörg var 12 ára gömul var skólakvíðinn orðinn svo mikill að hún reyndi að fyrirfara sér með því að taka inn pillur.

„Það endaði náttúrlega með ferð með sjúkrabíl í bæinn og viðtali inni á BUGL [innsk. blm. Barna-og unglingageðdeild Landspítalans] og síðan innlögn. Þá var hún í rauninni komin með kvíðaröskun og áfallastreituröskun að stórum hluta eftir einelti.“

Ingibjörg Melkorka á fermingardaginn.
Var á sínum besta stað þegar hún byrjaði í framhaldsskóla

Eftir bráðainnlögn á BUGL var Ingibjörg látin skipta um skóla. Var það mikið heillaskref þar sem henni var tekið vel af bæði kennurum og nemendum í skólanum. Hún prófaði reyndar aftur að taka töflur í 10. bekk og segir Kristín að þá hafi það verið félagsleg samskiptavandamál verið að trufla hana.

„En þegar hún kom í framhaldsskóla þá var hún á sínum besta stað. Hún var búin að velja lífið. [...] Það virtist allt ganga vel, húnvar ánægð og hún eignaðist vini en það var samt þannig að vanlíðanin var farin að banka aftur undir það síðasta,“ segir Kristín.

Síðan fer aftur að halla undan fæti.

„Eftir eineltið missir hún svolítið virðinguna fyrir sjálfum sér. Hún var alveg til í að ögra sér svolítið, taka smá áhættu. Hún leit á lífið sem stoppistöð en ekki áfangastað og var alveg til í að ögra lífinu svolítið,“ segir Kristín.



Langaði að prófa fíkniefni en hélt að hún myndi ekki lifa það af

„Hún var búin að segja við mig að hana langaði svo mikið að prófa fíkniefni. Ég var náttúrulega að reyna að segja segja henni að það væri mjög óskynsamlegt, maður var svo sem oft búin að fara yfir það . Hún var líka búin að segja mér að hún ætlaði að prófa þetta en það væri svo skrýtið að hún hefði þá tilfinningu að hún myndi ekki lifa þetta af. Hana langaði samt að prófa. Það var bara forvitni, að vita hvernig þetta virkar.“

Kristín ræddi við dóttur sína kvöldið áður en hún dó. Hún segist hafa heyrt á henni að það væri ekki allt með felldu en heyrði það jafnframt á Ingibjörgu að hún vildi ekki ræða það.

„Ég hugsaði „Æ, ég ætla að ræða þetta betur við hana á morgun.“ En svo um nóttina þá vakna ég bara við það að það er bankað. [...] Ég sé að klukkan er 5:06 og fyrsta sem ég hugsa er bara „Hvað er Ingibjörg búin að koma sér í núna?“ [...] Þegar ég kem til dyra þá stendur þar lögregluþjónn og segir að hún hafi verið að prófa að taka E-töflur. Það sé búið að senda hana suður en hún hafi verið meðvitundarlaus.“

Ingibjörg Melkorka hafði líka farið í hjartastopp og því var ljóst að ástandið var alvarlegt. Um kvöldmatarleytið kemur síðan í ljós að hún er heiladauð og muni aldrei anda sjálf.



Móðir Ingibjargar Melkorku segir að það hafi hjálpa dóttur sinni mikið að fara inn á BUGL.
Erfið ákvörðun að gefa líffæri Ingibjargar

Kristín segir að það hafi verið afar erfitt að gefa líffæri Ingibjargar en hún hafði sjálf óskað eftir því að líffæri sín yrðu gefin ef hún myndi deyja.

„Ég lá á bæn að það kæmi að hún mætti ekki vera líffæragjafi því ég vildi ekki taka þessa ákvörðun en ég vissi alveg að þegar einhver deyr þá gerirðu ekki þvert ofan í vilja hans. Ég vissi því allan tímann að ég yrði að samþykkja þetta.“

Kristín segir Ingibjörgu hafa drukkið áfengi, orðin sautján ára og það hafi gilt um marga jafnaldra hennar. Þá hafi hún ákveðið að byrja að reykja og gert það síðasta veturinn.

„En nei, hún hafði ekki verið í fíkniefnum og hún hafði ekki tekið E-töflur. Það gæti í rauninni enginn vitað hvaða áhrif það hefði á hana. Saga hennar gagnvart E-töflum er ótrúlega merkileg. Það hefur enginn einstaklingur á Íslandi dáið með eins lítið magn af e-töflum í blóðinu og hún. Það er ekkert sem segir okkur annað en það sé rétt að hún hafi tekið eina og hálfa töflu.“



Þarf að ná til barna áður en að skaðinn er skeður

Kristín sem sjálf er grunnskólakennari segist viss um að mörg börn séu í sömu stöðu og Ingibjörg Melkorka var áður en hún lést; með fjölþættan vanda og passa einhvern veginn ekki inn í kerfið.

„Ég held það skipti rosalega miklu máli að vinna úr einmitt þessum krökkum sem eru aðeins utangátta, fitta ekki alveg inn, halda vel utan um þau og viðurkenna þau á þeirra eigin forsendum eins og þau eru því ég held að þú missir svolítið sjálfsvirðinguna þína þú lendir í svona tilvistarkreppu og ferð að leita að útgönguleiðum. Því miður held ég að margir sem eru að glíma við fíkniefni í dag þau eigi svolítið svipaðan aðdraganda og hún að því að prófa. Þetta að vera utanveltu í skólakerfinu, vera í félagslegum erfiðleikum, glíma við andleg veikindi hvort sem þau eru afleiðing eða orsök, þá held ég að það skipti gríðarlega miklu máli að við náum þeim þarna áður heldur en að skaðinn er skeður.“

Líffæri Ingibjargar Melkorku voru gefin en það var hennar ósk að vera líffæragjafi.
Kristín segir að það hafi hjálpa Ingibjörgu Melkorku mikið að fara inn á BUGL.

„Ég held að ef hún hefði ekki farið þangað inn þá hefði þetta bara skeð einhverjum árum fyrr og ég er ekki í nokkrum vafa um það að þeir bættu líf hennar heilan helling. Satt að segja held ég að það hafi bara rétt vantað herslumuninn upp á að það hafi tekist að bjarga henni. Ég held að þessi forvitni hennar hafi verið það sem kom í veg fyrir það hún var í rauninni búin að sigrast á svo miklu að það er mikil synd að hún skuli ekki hafa fengið tíma til að klára.“

Kristín segir að í sögu dóttur sinnar séu þrír sterkir þættir sem vonandi geti nýst til þess að bjarga einhverjum öðrum sem lendir í svipuðum aðstæðum.

„Ég vona að sagan hennar verði til þess að forða einhverjum frá því að prófa fíkniefni og enda á þennan hræðilega hátt. Ég er líka að vona að sagan hennar geti vakið okkur til umhugsunar þannig að við höldum fastar og betur utan um krakkana sem lenda á skjön við kerfið og ég held að það skipti líka öllu máli að við séum ekki að pukrast út í horni með andleg veikindi.“

Viðtal Þórhildar Þorkelsdóttur við Kristínu Frímannsdóttur má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 


Tengdar fréttir

Nafn stúlkunnar sem lést

Stúlkan sem lést í kjölfar þess að hafa neytt eiturefnisins E-pillu aðfararnótt síðastliðins sunnudags hét Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir.

Ingibjörg Melkorka gaf líffæri sín

Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir, sautján ára stúlka sem lét lífið eftir að hafa neytt e-pillu aðfaranótt sunnudags, gaf líffæri sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×