Erlent

„Við viljum finna aðra Jörð“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
„Þetta er það sem rannsóknir á reikistjörnum utan sólkerfisins snúast að mestu leyti um. Við viljum finna aðra Jörð,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins um uppgötvun sjö reikistjarna á stærð við Jörðina í aðeins 40 ljósára fjarlægð.

Geimvísindastofnanir tilkynntu í dag um tilvist að minnsta kosti sjö lítilla reikistjarna í kringum köldu rauðu dvergstjörnuna TRAPPIST-1. Að minnsta kosti sex innstu reikistjörnurnar eru álíka stórar og heitar og Jörðin.

Sævar segir að uppgötvunin sé býsna merkileg, ekki síst fyrir þær sakir hversu nálægt okkur reikistjörnurnar eru.

„Það þýðir það að við getum notað alla stærstu sjónauka heimsins sem eru til í dag og líka í framtíðinni til þess að rannsaka þetta sólkerfi í smáatriðum og það höfum við hingað til ekki getað gert þannig að þetta er spennandi að því leytinu til,“ segir Sævar Helgi.

 

Smella má á myndina til að sjá stærri útgáfu.Vísir/Graphic News
Ómögulegt að segja hvort það reynist líf í sólkerfinu

Þrátt fyrir að 40 ljósár teljist ekki gríðarleg fjarlægð í heimi geimvísinda bendir Sævar Helgi þó á að ferðalög þangað séu ómöguleg, að minnsta kosti í nánustu framtíð enda myndi það taka geimfara átta hundruð þúsund ár að ferðast að reikistjörnunum miðað við núverandi tækni.

Þrjár af reikistjörnunum eru í lífbelti sólkerfisins og gætu þar af leiðandi haft fljótandi vatn á yfirborði sínu og þannig aukið líkurnar á að í kerfinu gæti leynst líf. En hvers konar líf?

„Það er ómögulegt að segja. Við vitum í fyrsta lagi ekki hvort það sé líf þarna yfir höfuð og kannski er það ólíklegt,“ segir Sævar Helgi. „Ef það er eitthvað líf þarna er ómögulegt að segja til um hvernig það er, það fer alveg eftir umhverfisaðstæðum og þróun.“

Búast má við að vísindamenn muni grannskoða reikistjörnunar og hefur Hubble-sjónaukinn þegar beint sjónum sínum að hnöttunum sjö. Vísindamenn munu á næstu misserum beina stærstu sjónaukum heimsins að sólkerfinu til þess að afla meiri upplýsinga.

„Við viljum finna aðra Jörð, ekki til þess að geta endilega flutt þangað, heldur til þess að geta lært svolítið meira um fjölbreytileika lífs í alheiminum og hvernig við komumst hingað þar sem við erum núna,“ segir Sævar Helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×