Innlent

„Þetta verður stórglæsileg ráðstefna"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ráðstefnan er haldin á vegum íslensku samtakana Nei við ESB og norsku samtakana Nei til EU.
Ráðstefnan er haldin á vegum íslensku samtakana Nei við ESB og norsku samtakana Nei til EU. Vísir/GVA
„Þetta verður stórglæsileg ráðstefna,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar Alþingis, en hún verður einn framsögumanna á ráðstefnu um Evrópumál á vegum íslenskra og norskra samtaka sem eru andvíg aðild að Evrópusambandinu.

„Ég hvet alla til að koma og hlusta á efnisrík erindi um stöðu sjálfstæðra þjóða á Norðurslóðum,“ segir Vigdís. Framsögumenn ráðstefnunnar eru frá þremur löndum, öll sem eru fyrir utan Evrópusambandið. Josef Motzfeldt flytur eitt aðalerindið á ráðstefnunni, en hann var forseti grænlenska þingsins auk þess að gegna stöðu þingmanns og ráðherra á löngum stjórnmálaferli þar í landi.

Mikið samstarf við Norðmenn

Ráðstefnan er haldin á vegum íslensku samtakana Nei við ESB og norsku samtakana Nei til EU. Íslensku samtökin eru regnhlífasamtök fyrir félög sem eru andvíg aðild að Evrópusambandinu. Þau félög eru Heimssýn, Ísafold og Herjan.

Vigdís segir mikið samstarf vera á milli íslensku og norsku samtakana.

„Norðmennirnir hafa áratuga reynslu í að berjast gegn aðild og við þurfum ekkert að vera að finna upp hjólið hér á landi. Við reynum að vera í miklu samstarfi og fundum reglulega,“ segir þingkonan.

„Norðmenn eru einmitt að halda upp á 20 ára afmæli þess þegar þeir höfnuðu aðildarsamingi í annað skiptið, árið 1994,“ segir Vigdís.

Ráðstefnan hefst hálftíu á laugardagsmorgun og fer fram á Hótel Sögu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×