Erlent

„Hún er jafn raunveruleg og Dirty Harry“

Birgir Olgeirsson skrifar
Jesse Ventura, fyrrverandi ríkisstjóri Minnesota, ætlar ekki að sjá kvikmyndina American Sniper. Hann vann meiðyrðamál gegn dánarbúi Chris Kyle vegna ummæla sem birtust í bókinni American Sniper sem fjallar um líf Kyles.
Jesse Ventura, fyrrverandi ríkisstjóri Minnesota, ætlar ekki að sjá kvikmyndina American Sniper. Hann vann meiðyrðamál gegn dánarbúi Chris Kyle vegna ummæla sem birtust í bókinni American Sniper sem fjallar um líf Kyles. Getty.
Ein umtalaðasta kvikmyndin um þessar mundir er án nokkurs vafa American Sniper sem segir frá lífi bandarísku leyniskyttunar Chris Kyle. Leikstjóri myndarinnar er Clint Eastwood og fer leikarinn Bradley Cooper með hlutverk Kyles í myndinni.

Margir hafa lýst yfir óánægju með myndina og eru þeirra á meðal leikarinn Seth Rogen og leikstjórinn Michael Moore. Sá sem hefur hvað lengst haft horn í síðu Kyles er fyrrverandi ríkisstjóri Minnesota, Jesse Ventura, sem hefur harðneitað að sjá myndina.

Vann meiðyrðamál gegn dánarbúi Kyles

Ventura var áður í sérsveit bandaríska sjóhersins(Navy Seal) en í fyrra vann hann meiðyrðamál gegn dánarbúi Chris Kyle, sem einnig var í umtalaðri sérsveit, vegna ummæla sem birtust bókinni American Sniper sem fjallar um líf Kyles.

Ventura sakaði Kyle um að hafa skáldað kafla í bók sinni en þar sagðist Kyle hafa kýlt karlmann á bar í Kaliforníu árið 2006 fyrir að hafa sagt að sérsveit bandaríska sjóhersins ætti skilið að missa nokkra liðsmenn í Írak. Kyle sagði manninn hafa verið Jesse Ventura en sá síðarnefndi hélt því fram að þetta hefði aldrei gerst og fékk 1,8 milljónir dollara í bætur frá dánarbúi Kyles vegna meiðyrða.

Chris Kyle.Getty
„Enginn heiður í lygi“

Í augum Ventura er Kyle engin hetja líkt og hann birtist í kvikmyndinni American Sniper og segist ekki ætla að sjá myndina. „Hetja verður að vera heiðarleg og þú getur ekki verið heiðarlegur ef þú ert lygari. Það er enginn heiður í lygi,“ segir Ventura við The Associated Press.

Hann segir American Sniper auk þess vera áróðurstæki fyrir stríðsrekstur Bandaríkjanna vegna þess hvernig Íraksstríðið er tengt við hryðjuverkaárásarinar í New York 11. september árið 2001 í myndinni. „Hún er jafn raunveruleg og Dirty Harry,“ segir Ventura og vísar þar í kvikmyndir um lögreglumanninn Dirty Harry sem Clint Eastwood lék á árum áður.

Eftir að hafa unnið meiðyrðamálið gegn dánarbúi Kyles þá fjarlægði útgefandi bókarinnar, HarperCollins, kaflann sem fjallaði um Ventura. Dánarbúið hefur áfrýjað þessum dómi og á eftir að taka fyrir stefnu Ventura á hendur HarperCollins.

Var áður fjölbragðaglímukappi

Ventura var á árum áður fjölbragðaglímukappi en hefur einnig getið sér gott orð í heimi kvikmyndanna og leikið í myndum á borð við Predator og The Running Man. Aðalleikari þeirra mynda var Arnold Schwarzenegger sem síðar varð ríkisstjóri Kaliforníu.

Kyle lést á skotsvæði árið 2013 en en réttarhöld gegn manninum sem er ákærður fyrir að hafa orðið valdur að dauða hans hefjast í Texas næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×