Innlent

„Héraðsdómur byggði dóm sinn á röngum forsendum“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Dómkvaddir matsmenn, sem í gær gáfu álit sitt á ákveðnum þáttum í gögnum lögreglunnar vegna morðsins á Karli Jónssyni, telja að þó sú atburðarrás sem stuðst var við í sakfellingu málsins sé röng að þeirra mati, hreinsi það ekki Friðrik Brynjar Friðriksson af þeim ásökunum sem á hann eru bornar. Verjandi Friðriks telur að sýkna ætti skjólstæðing sinn í Hæstarrétti, í það minnsta ætti að vísa málinu aftur heim í hérað.

16 ára fangelsisdómi Friðriks var áfrýjað og í kjölfarið þess krafist að dómkvaddir matsmenn yrðu skipaðir til þess að yf­ir­fara blóðferla­rann­sókn­ir og aðrar vett­vangs­rann­sókn­ir sem fram­kvæmd­ar voru í íbúð Karls. Jóhann Eyvindsson og Gillian Leak voru fengin til verksins. Í skýrslu þeirra er sett út á eitt og annað í rannsókn málsins og sumum tilgátum hreinlega hafnað, meðal annars þeirri að Karli hafi verið veittir áverkar á fleiri en einum stað í íbúðinni.

„Allur málatilbúnaðurinn og allar forsendurnar sem byggt er á í  héraðsdómi byggja, samkvæmt niðurstöðum matsmanna, á röngum forsendum. Það eina sem stendur þá kannski eftir er að ákærði er eini aðilinn, í dag eins og staðan er, hefur verið staðsettur á vettvangi á þeim tíma sem þessi verknaður átti sér stað,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Friðriks Brynjars.

Í skýrslu matsmannanna segir jafnframt:

„Það eru engir blóðferlar sem við fundum á munum Friðriks Brynjars sem gefa til kynna að hann hafi framkvæmt stunguárásina. Samt sem áður, útilokar ekki skortur á slíkum ferlum, þann möguleika að hann hefði geta valdið stungusárunum.”

Sveinn Andri telur að með skýrslu matsmannanna hafi stoðum verið ýtt undir þá staðföstu trú hans að Friðrik sé saklaus.

„Sjálfur er ég sannfærður um að hann hafi ekki framið þennan verknað. Það er svo margt í þessu máli sem er svo undarlegt og óútskýrt. Ég myndi telja það líklegra en ekki að Hæstiréttur vísi málinu aftur heim til héraðsdóms þannig að hægt sé að halda aðra aðalmeðferð þar sem þá önnur rannsóknarniðurstaða á vettvangi liggur fyrir. Sjálfur myndi ég sýkna ákærða.“

Hvort Sveini Andra verði að ósk sinni eða hann reynist sannspár skal ósagt látið. Hafa ber þó í huga að matsmennirnir voru aðeins fengnir til að yfirfara hluta sönnunargagnanna í málinu. Héraðsdómur Austurlands studdist við fjölmörg önnur atriði þegar dómur féll og því ekki ólíklegt, hvað þá útilokað að Hæstiréttur staðfesti dóminn.


Tengdar fréttir

Gögn málsins sanna ekki morðið á Karli

Tveir matsmenn, sem fengnir voru til að yfirfara gögn í Egilsstaðamorðmálinu svokallaða, eru sammála um öll atriði málsins. Þeir segja að gögn málsins ein og sér leiði ekki sekt Friðriks Brynjars Friðrikssonar, sem var dæmdur í fangelsi, í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×