Viðskipti innlent

„Dómstólar hér á landi þurfa nú að taka mið af álitinu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Vilhjálmur Bjarnason, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Vísir
Hagsmunasamtök heimilanna telja áliti EFTA veita skýrar leiðbeiningar um þau sjónarmið sem liggja til grundvallar málaferlum þar sem reynir á lögmæti verðtryggðra neytendalána. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

EFTA-dómstóllinn hefur kveðið upp ráðgefandi álit sitt um útreikning lánskostnaðar og árlegrar hlutfallstölu kostnaðar verðtryggðra neytendalána en niðurstaðan var sú að það samræmist ekki ákvæðum tilskipunarinnar að útreikningar á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, séu miðaðir við 0% verðbólgu.

„Sú skilgreining nær samkvæmt íslenskum lögum frá 1. október 1993 yfir hverskyns neytendalán, þar á meðal námslán, bílalán, kostnaður vegna yfirdráttarlána, almenn skuldabréfalán og fleiri, en fasteignalán voru felld undir sömu reglur frá og með 11. janúar 2001. Samkvæmt lögskýringargögnum með frumvarpi til laga um neytendalán frá 1993 teljast verðbætur falla undir upplýsingaskyldu um lánskostnað með sama hætti og vextir,“ segir í tilkynningunni.

Rennir stoðum undir ákvörðun Neytendastofu

Þar kemur einnig fram að álit EFTA-dómstólsins renni styrkum stoðum undir ákvörðun Neytendastofu þar sem talið var að óheimilt hefði verið að miða útreikning lánskostnaðar við forsendur um 0% verðbólgu.

„Dómstólar hér á landi þurfa nú að taka mið af álitinu við úrlausn mála um verðtryggð lán, og munu jafnframt þurfa að beita sömu reglum íslenskra laga í málum er varða húsnæðislán. Niðurstaða EFTA-dómstólsins gefur íslenskum dómstólum einstakt tækifæri til að dæma eftir skýrum íslenskum lögum og auka trú almennings á dómskerfið, sem hefur mælst lágt í könnunum að undanförnu.“

Mikil umræða hefur verið um hvort verðtryggð húsnæðislán falli einnig undir EFTA álitið, en það fjallaði um verðtryggt neytendalán.

„Hagsmunasamtök heimilanna hafa alla tíð vakið athygli á því að verðtryggð húsnæðislán heimilanna falli undir íslensk lög um neytendalán með sama hætti og önnur neytendalán. Þess má geta að á þessum sama grundvelli er nú rekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að í samstarfi við félagsmenn í samtökunum. Upphaf málsins má rekja aftur til ársins 2012 en aðalmálflutningur verður loksins þann 8. desember og niðurstaða héraðsdóms gæti legið fyrir upp úr áramótum.“

Nauðsynlegt að bregðast við

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist við þeirri stöðu sem uppi er með því að stöðva nauðungarsölur á heimilum og fresta gjaldþrotameðferð einstaklinga.

„Á meðan óvissa er uppi um lögmæti þess að innheimta verðbætur af verðtryggðum neytendalánum, hníga málefnaleg rök að því að veita slíka frestun. Jafnframt er nauðsynlegt að hugað verði að því að færa í lög heimildir til endurupptöku slíkra mála, í þeim tilfellum sem gengið hefur verið þannig fram gegn neytendum á grundvelli lána sem gætu hafa verið ólögmæt.“

Mikilvægt sé að að stjórnvöld hugi að skyldum sínum til þess að standa vörð um réttindi neytenda, og forgangsraði þeim framar hagsmunum fjármálafyrirtækja.

„Í þeirri umræðu sem framundan er um þessi mál á opinberum vettvangi má búast við því að allskyns fullyrðingar muni heyrast og ummæli falli sem getur verið vandi að átta sig á hvort að eigi við rök að styðjast. Rétt er að hvetja til hófstilltrar og rökrænnar umræðu í þjóðfélaginu, enda er í raun um frekar einföld álitaefni að ræða, þó svo að lagatæknilegar hliðar þeirra virðist ef til vill stundum flóknar.“

Samtökin benda einnig á að engin ástæða sé til að hafa þungar áhyggjur af áhrifum dómsmála um verðtryggð neytendalán á efnahagslegan stöðugleika þjóðarbúsins.

„Verði niðurstöður þeirra mála neytendum í hag og lánveitendum í óhag, hafa þeir flestir talsvert borð fyrir báru. Ekki ein einasta króna mun tapast út úr íslensku hagkerfi hvort sem tilteknar fjármunaeignir flytjist á milli aðila eða ekki. Það að útfærsla verðtryggðra neytendalána yrði talin ólögmæt gæti haft mjög jákvæð áhrif á hag íslenskra heimila ef rétt er að málum staðið af íslenskum stjórnvöldum, og myndi gera heimilunum betur kleift að taka þátt í uppbyggingu á blómlegu íslensku efnahagslífi til framtíðar. Ekki má gleymast að heimilin eru grunnstoð samfélagsins.“


Tengdar fréttir

Missa bankarnir þá axlaböndin?

Mikið var gott að heyra Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, segja að eigið fé bankans sé með þeim ágætum að Landsbankinn væri fullfær um að greiða til baka allar verðtryggingargreiðslur liðinna ára, yrði sú niðurstaða dómstóla.

Heildarverðmæti verðtryggðra lána er 1401 milljarður

„Það þýðir ekkert að tala um þessi efnahagslegu áhrif. Þau gætu verið mjög lítil en þau gætu orðið eitthvað meiri. Það er ekki fyrr en þetta skýrist meira hjá íslenskum dómstólum og í túlkunum og umræðum milli lögfræðinga að það er meira hægt að sjá fram á það,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um áhrif ráðgefandi álits EFTA frá því í gær.

Verðtrygging á brauðfótum – nýtt tækifæri?

EFTA-dómstóllinn hristi í byrjun vikunnar rækilega við landanum með ráðgefandi áliti sínu um að framkvæmd verðtryggingar á Íslandi sé ólögleg þar sem gert sé ráð fyrir núll prósent verðbólgu í greiðsluáætlunum við lántöku. Fyrir vikið gefur greiðsluáætlun ekki raunhæfa mynd af áætluðum kostnaði lántakenda af lántökunni. Slíkt brýtur gegn neytendaverndarreglum ESB, sem Alþingi hefur að mestu lögfest hér á landi.

Sker úr um 0% viðmið á láni

Á mánudag gefur EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit vegna máls sem Sævar Jón Gunnarsson höfðaði gegn Landsbankanum. Sævar tók verðtryggt 630 þúsund króna lán hjá bankanum 19. nóvember 2008 gegn útgáfu skuldabréfs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×