Erlent

Zara hættir við sölu á barnapeysu

Atli Ísleifsson skrifar
Zara leggur áherslu á að lögreglustjórastjörnur í vestrum hafi veitt hönnuðum peysunnar innblástur.
Zara leggur áherslu á að lögreglustjórastjörnur í vestrum hafi veitt hönnuðum peysunnar innblástur.
Spænska fatakeðjan Zara hefur beðist afsökunar á nýrri barnapeysu sinni eftir að bent var á að hún þykir minna um of á helför gyðinga. Peysurnar hafa jafnframt verið teknar úr hillum verslana fyrirtækisins.

Peysan, sem gengur undir nafninu „Sheriff“, er þverröndótt, svört og hvít á lit og með stórri gulri stjörnu. Stjarnan þykir svipa til Davíðsstjörnunnar sem gyðingar voru neyddir til að klæðast á tímum helfararinnar og röndótta munstrið á fangabúninga sem notaðir voru í einangrunarbúðum nasista.

Í frétt SVT kemur fram að peysan hafi vakið mikla athygli í samfélagsmiðlum og hefur Zara nú beðist afsökunar á henni. Leggur fyrirtækið þó áherslu á að lögreglustjórastjörnur í vestrum hafi veitt hönnuðum peysunnar innblástur.

Verslunarstjóri Zöru í Kringlunni segir í samtali við Vísi að umræddri peysu hafi ekki verið komið fyrir í hillum Zöru-verslana á Íslandi. Póstur um málið hafi þó borist frá höfuðstöðvum Zöru.

Árið 2007 þurfti Zara að taka handtöskur úr umferð eftir að bent var á að hakakross væri að finna á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×