Sport

Wozniacki gleymdi ávísun upp á 173 milljónir króna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Hin danska Caroline Wozniacki hefur náð frábærum árangri á sínum tennisferli en segir að peningar séu ekki í aðalhlutverki hjá sér.

Það kom greinilega í ljós þegar hún gleymdi að sækja ávísun upp á 1,45 milljónir Bandaríkjadala, um 173 milljónir króna, eftir að hún tapaði úrslitaleik Opna bandaríska meistaramótsins á dögunum.

Eftir úrslitaleikinn, sem Serena Williams vann, ræddi hún við fjölmiðla, tók saman föggur sínar og hélt heim á leið. Um hálftíma síðar sneri hún aftur. „Ég gleymdi ávísuninni minni,“ sagði hún.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun um hana sem birtist í Wall Street Journal í vikunni. Þar kemur fram að það séu ekki peningar sem skipti hana mestu máli.

Þrátt fyrir það er hún með auglýsingasamning við risafyrirtæki eins og Adidas og Rolex. Hún þénar árlega um tíu milljónir dollara (1,2 milljarð króna) á þeim.

„Ég vil standa mig vel fyrir sjálfa mig og stuðningsaðila mína. En ég finn ekki fyrir neinni pressu því ég er ekki að spila fyrir peningana.“

„Ég á nóg til að kaupa mér mat og fína skó. Mikilvægast finnst mér að spila tennis og vinna mót. Peningarnir eru mér ekki hvatning.“

Í umfjöllun Wall Street Journal er fjallað um feril hennar í löngu máli, ástarsamband hennar við kylfinginn Rory McIlroy og þá staðreynd að hún talar átta tungumál.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×