Enski boltinn

Wenger: Ox getur orðið heimsklassa leikmaður líkt og Beckham og Zidane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Oxlade-Chamberlain og Santi Cazorla bregða á leik eftir sigur Arsenal í leiknum um Samfélagsskjöldinn,
Alex Oxlade-Chamberlain og Santi Cazorla bregða á leik eftir sigur Arsenal í leiknum um Samfélagsskjöldinn, Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur mikla trú á enska landsliðsmanninum Alex Oxlade-Chamberlain og segir hann hafi hæfileika til þess að verða jafn öflugur leikmaður og þeir David Beckham og Zinedine Zidane.

Alex Oxlade-Chamberlain (Ox) viðurkenndi í viðtali fyrir seinni leik Arsenal og Besiktas í umspili um sæti í Meistaradeildinni að hann nyti þess meira að spila á miðjum vellinum en ekki út á kanti.

Wenger var spurður út í þetta á blaðamannafundi fyrir leikinn og sló ekkert af: „Beckham og Zidane spiluðu báðir út á kanti og þeir urðu heimsklassaleikmenn. Alex getur farið sömu leið og þeir," sagði Arsene Wenger á fundinum en BBC segir frá þessu síðan í dag.

Alex Oxlade-Chamberlain er nýorðinn 21 árs og er með samning við Arsenal til ársins 2018. Hann hefur spilað 95 mínútur í fyrstu tveimur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni og kom inná sem varamaður fyrir Alexis Sánchez þegar 18 mínútur voru eftir af fyrri leiknum við Besiktas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×