Viðskipti innlent

Völundur Snær ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot

Birgir Olgeirsson skrifar
Völundur Snær Völundarson matreiðslumaður.
Völundur Snær Völundarson matreiðslumaður. Vísir/Anton Brink
Embætti sérstaks saksóknara hefur höfðað mál gegn matreiðslumanninum Völundi Snæ Völundarsyni fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum.

Upphæð brotanna nemur 17,5 milljónum króna en hann er sakaður um að hafa sem daglegur stjórnandi og stjórnarmaður einkahlutafélagsins VH fjárfesting ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilsins nóvember til desember á rekstrarárinu 2013.

Þá er hann einnig sakaður um að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna september til október og nóvember til desember rekstrarárið 2013.

Nemur upphæð þeirra brota 4,5 milljónum króna.

Embættið sakar hann einnig um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðsluskilagrein einkahlutafélagsins á lögmætum tíma vegna greiðslutímabilsins desember 2013 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við fyrirmæli laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna ágúst, september, október og desember rekstrarárið 2013, en upphæð þeirra brota nemur þrettán milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×