Viðskipti innlent

Vodafone á markað í september eða október

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Annað stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins fer á markað í haust. Leit að ráðgjafa stendur yfir. Vel kemur til greina að selja hlut til kjölfestufjárfestis. Stjórnarformaður segir markaðsaðstæður vera góðar og að félagið sé rekstrarlega stöðugt.

Stjórn Vodafone hefur ákveðið að hefja undirbúning að skráningu félagsins á markað. Markmið hennar er að skráningin muni eiga sér stað í september eða október á þessu ári. Þetta staðfestir Þór Hauksson, stjórnarformaður Vodafone, í samtali við Markaðinn. Félagið er næst stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins á eftir Símanum. Auk þess rekur það fjarskiptafyrirtæki í Færeyjum.

Óskað verður eftir því að hlutir í Vodafone verði teknir til viðskipta í Kauphöll Íslands í haust að undangengnu útboði. Því verður beint að fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Stefnt er að því að tryggja dreifða eignaraðild að félaginu.

Þór segir ákvörðunina hafa verið tekna á síðasta stjórnarfundi Vodafone, sem haldinn var í apríl. „Við teljum tímapunktinn réttan fyrir félagið að fara í skráningu. Það er stöðugt rekstrarlega séð. Það eru þrjú ár síðan það fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Við teljum það því vera skráningarhæft félag og rétt að fjölga hluthöfum þess. Við metum það líka, eins og staðan er í dag, að markaðsaðstæður verði góðar í haust."

Að sögn Þórs hefur stjórnin fundið fyrir áhuga á meðal fjárfesta á að koma inn í hlutahafahóp Vodafone. Sá áhugi er að mestu hjá fagfjárfestum. Nú stendur yfir leit að ráðgjafa til að sjá um ferlið og stjórn Vodafone sendi bréf til tíu aðila sem hún telur að hafi getu til þess síðastliðinn mánudag.

Þór segir að vel komi til greina að selja fyrst hlut til kjölfestufjárfesta. „Við sjáum fyrir okkur að gera þetta tvíhliða. Vel kemur til greina að leita fyrst að kjölfestufjárfestum á meðal fagfjárfesta og síðan að fara í opið útboð."

Vodafone er sem stendur í ráðandi eigu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), sem á 79,5 prósent eignarhlut. Félagið verður það fyrsta sem FSÍ mun nýskrá á markað síðan að sjóðurinn var stofnaður í desember 2009. Alls voru eigendur Vodafone samtals 45 talsins um síðustu áramót. Þorri viðbótarhlutafjár í félaginu er í eigu lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja.

Teymi, fyrrum móðurfélag Vodafone, gerði nauðasamning við kröfuhafa sína í apríl 2009. Í kjölfarið var hluti vaxtaberandi skulda Vodafone færður yfir til Teymis og öðrum vaxtaberandi skuldum að frádregnum kröfum á hendur Teymi umbreytt í nýtt hlutafé. Við þessa aðgerð lækkuðu skuldir Vodafone um tæpa átta milljarða króna á árinu 2009.

Í kjölfarið eignaðist Landsbankinn ráðandi hlut í félaginu og renndi því inn í þá nýstofnað eignaumsýslufélag sitt Vestia. Í águst 2010 var síðan tilkynnt um að Landsbankinn hefði selt Vestia til FSÍ gegn því að bankinn eignaðist 27,6 prósent í sjóðnum. Hann er nú stærsti einstaki eigandi FSÍ.

Síðan þá hefur rekstur Vodafone gengið ágætlega. Velta Vodafone á árinu 2011 var 12,7 milljarðar króna, sem var mjög svipað og félaginu velti árið á undan. Framlegð þess var um fimm milljarðar króna hagnaður 227 milljónir króna á síðasta ári. Það var nokkuð minna en árið 2010 þegar Vodafone hagnaðist um 355 milljónir króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×