Innlent

Vill ræða mál Nubos af yfirvegun

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon segir betra að ræða mál Huangs Nubos af yfirvegun en að hrópast á í fjölmiðlum. Ríkisstjórnin mun skipa hóp ráðherra til að mynda afstöðu ríkisstjórnarinnar til framkvæmdana.

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að mynda hóp ráðherra og ráðuneyta til að fara yfir stöðu málsins og aðkomu ríkisins. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir það viðhorf uppi að ekkert hafi hingað til gerst í málinu sem sé óafturkræft, fjárfesting Huangs Nubos skapi mörg álitamál.

„Yfir það þarf að fara og það er ekkert óafturkræft í þessum efnum," segir Ögmundur.

Hann segir hópinn eiga eftir að mynda lokaafstöðu ríkisstjórnarinnar til málsins.

„Við í sameiningu setjumst yfir málin. Förum efnislega yfir það sem vitað er um málið. Gröfumst eftir öðru sem dýpra er á og komumst svo sameiginlega að niðurstöðu."

Á vef iðnaðarráðuneytisins var í dag birt fréttatilkynning þar sem fjallað er um málið. Þar segir að ýmsum spurningum sé ósvarað hvað varðar uppbyggingu innviða í tengslum við fjárfestingu Nubos. Til að mynda raforkudreifingu, snjómokstur, skóla og heilbrigðisþjónustu.

„Já, það er ýmislegt sem tengist auðvitað þá innviðum sem verða að vera til staðar ef menn fara út í uppbyggingu af þessu tagi á svona stað. Það eru fjárhagsleg og umhverfisleg sjónarmið sem þarf að fara yfir," segir Steingrímur J. Sigfússon, sitjandi iðnaðarráðherra.

Hann segir málið vera viðkvæmt.

„Sumir blanda í það pólitík eða stórveldapólitík og tilfinningum. Ég held að það sé öllum fyrir bestu að ræða þetta af yfirvegun og skoða. Ana ekki að neinu í þeim efnum. Það sé betri kostur en að hrópast á um þetta í fjölmiðlum eða á torgum," segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×