Innlent

Vill minnka umsvifin hjá eftirlitsstofnunum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir það munu hafa lítil áhrif á afkomu ríkissjóðs að draga úr umsvifum eftirlitsstofnana.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir það munu hafa lítil áhrif á afkomu ríkissjóðs að draga úr umsvifum eftirlitsstofnana. Fréttablaðið/Pjetur
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir eðlilegt að draga úr umsvifum eftirlitsstofnana hér á landi. Þetta kom fram í máli Bjarna á Alþingi í gær.

Bjarni segir að ekki standi þó til að kippa stoðunum undan rekstri þeirra.

„Hins vegar var það svo að margar eftirlitsstofnanir voru styrktar mjög verulega, beinlínis í þeim tilgangi að taka á þeim atburðum sem hér urðu haustið 2008. Bæði til að rannsaka mál og endurskoða verklag og ferla, lög og reglur tímabundið. Nú er árið 2013. Nú hljótum við öll að vera sammála um það að við þurfum að fara að vinna okkur í átt til þess að finna nýtt jafnvægi í því hver umsvif eftirlitsstofnana eigi að vera til framtíðar,“ sagði Bjarni.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, sagðist í samtali við Fréttablaðið á mánudag vilja draga úr fjárstreymi til eftirlitsstofnana. Hann ætlar að leggja áherslu á það innan hagræðingarhópsins og jafnframt taka málið upp innan fjárlaganefndar Alþingis.

Bjarni segir að það muni hafa lítil áhrif á afkomu ríkissjóðs þótt dregið verði úr umsvifum þessara stofnana, enda séu þær að mörgu leyti fjármagnaðar með sérstökum gjöldum. Hins vegar sé mikilvægt að horfa til framtíðar í þessum efnum.

„Þetta er ekki umræða sem snýst um það að kippa stoðunum undan eftirlitsstofnunum í landinu. Þetta er umræða sem snýst um það hvar við finnum hið nýja jafnvægi í þessum efnum,“ sagði Bjarni á Alþingi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×