Innlent

Vill að ráðherrar sniðgangi vetrarólympíuleikana

Höskuldur Kári Schram skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar telur rétt að íslenskir ráðamenn sniðgangi vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi í næsta mánuði til að mótmæla mannréttindabrotum þar í landi.

Tveir ráðherra hafa boðað komu sína á leikana, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.

Sigríður tók málið upp á Alþingi í dag og spurði Illugi hvort hann ætli að koma á framfæri mótmælum við rússneska ráðamenn.

„Samtökin 78 á Íslandi hafa kallað eftir mótmælum íslenskra stjórnvalda og að þau beiti rússnesk stjórnvöld þrýstingi. Ef ráðherra ætlar á annað borð á ólympíuleikana ber honum skylda til að mínu mati að koma á framfæri alvarlegum mótmælum við mannréttindabrotum sem nú tíðkast í Rússlandi,“ sagðir Sigríður.

Illugi Gunnarsson tók undir áhyggjur Sigríðar af stöðu mannréttindamála í Rússlandi og sagðist ætla að koma á framfæri mótmælum fái hann til þess tækifæri. Hann sagði hins vegar varhugavert að tengja ólympíuleikana við stjórnmál.

„Ég mun að sjálfsögðu, fái ég til þess tækifæri, koma sjónarmiðum mínum á framfæri hvað varðar það sem háttvirtur þingmaður nefndi hér og spurði um, hvort ég mundi lýsa afstöðu minni til þeirra mannréttindabrota sem sannarlega eru stunduð þarna. Afstaða mín mun koma fram fái ég til þess tækifæri. Ég er ekki alveg klár á því hvort slíkt tækifæri mun gefast en verði svo mun ég reyna að gera það,“ sagði Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×