Erlent

Vill að konum verði leyft að keyra bíla í Sádi-Arabíu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alwaleed bin Talal, prins í Sádi-Arabíu.
Alwaleed bin Talal, prins í Sádi-Arabíu. Nordicphotos/AFP
Sádiarabískur prins, Alwaleed bin Talal að nafni, vill að konum verði leyft að keyra bíla í Sádi-Arabíu.

„Hættum umræðunni: Það er kominn tími til þess að konur keyri,“ skrifar hann á Twitter-reikning sinn. Frá þessu er meðal annars skýrt á fréttavef breska dagblaðsins The Guardian.

Alwaleed er auðkýfingur mikill, umsvifamikill í viðskiptalífi Sádi-Arabíu og hefur lengi verið óhræddur við að tjá sig um réttindi kvenna og önnur hitamál þar í landi.

Hann færir meðal annars efnahagsleg rök fyrir áskorun sinni í yfirlýsingu sem barst frá skrifstofu hans stuttu eftir að Twitter-færslan birtist.

„Að banna konu að keyra bifreið er í dag réttindamál af svipuðu tagi og þegar konum var bannað að menntast eða vera sjálfstæðir einstaklingar,“ segir í yfirlýsingunni. „Þetta er ranglæti frá tímum hefðarsamfélags, miklu meira hamlandi en það sem leyft er að lögum samkvæmt forskrift trúarinnar.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×