Viðskipti innlent

Vilja framselja lóðir til verktaka og gera upp skuldir

Magnús Halldórsson skrifar
Ríflega 600 milljóna króna skuld Sunnuhlíðar við Landsbankann er úr sögunni ef að bæjarstjórn Kópavogs samþykkir framsal á lóðum til verktakafyrirtækisins Jáverks, en málið er á dagskrá fundar bæjarstjórnarinnar í dag. Bæjarlögmaður Kópavogs segir aðeins mögulegt að leyfa framsalið ef byggð verður upp sambærileg starfsemi og Sunnuhlíð.

Sjálfseignarstofnunin Sunnuhlíð er hjúkrunarheimili fyrir aldraða í vestubæ Kópavogs og eru þar vel á annað hundrað íbúar í 108 íbúðum. Fjárhagur heimilisins hefur um nokkurt skeið verið í nokkru uppnámi, vegna skulda heimilisins við Landsbankann sem tengdist áformum um uppbyggingu á lóðum á Kópavogstúni.

Við efnahagshrunið komst uppbyggingarverkefnið í uppnám og hafa skuldbindingar heimilisins gagnvart Landsbankanum síðan verið í uppnámi. Í ársreikningi Sunnuhlíðar fyrir árið 2011 kemur fram að lán frá Landsbankanum sé í vanskilum og eigi að vera uppgreitt samkvæmt ákvæðum í lánasamningi, en á þessu ári hefur verið unnið að samkomulagi um uppgjör á skuldinni.

Það samkomulag hefur náðst, en í því felst að Sunnuhlíð hættir við uppbyggingaráformin á Kópavogstúni og framselur lóðaleigurétt á Kópavogstúni til verktakafyrirtækisins Jáverks, en skuld Sunnuhlíðar upp á ríflega 600 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi 2011, er uppgerð við þetta.

Samkvæmt minnisblaði sem Pálmi Másson bæjarlögmaður og Ingólfur Arnarsson fjármálastjóri Kópavogs unnu fyrir bæjarstjórn um málið, kemur fram að Kópavogsbær þurfi að taka afstöðu til málsins, en til að raska ekki ákvörðunum um álögð gjöld, þá þurfi að byggjast upp sérhæfð notkun á lóðunum, sambærileg þeirri sem Sunnuhlíð ætlaði út í.

Jóhann Árnason, framkvæmdstjóri Sunnuhlíðar, segist ánægður með að samkomulag um endurskipulagningu á fjárhagnum sé í augsýn.

„Það er búið að ná samkomulagi við Landsbankann, og í því felst að fá heimild til þess að framselja lóðaleigurétt til verktaka, og það verður tekið fyrir í bæjarstjórn Kópavogs í dag. Ég á von á því að það mál sé í góðum farvegi," sagði Jóhann.

Jóhann segir að íbúar þurfi ekki að óttast um að tapa fé sem þeir hafi lagt í íbúarétt í íbúðum Sunnuhlíðar.

„Þeir ættu að ekki þurfa að óttast um neitt. Ef að illa færi, þá stæðu í það minnsta íbúðirnar undir endurgreiðslu, þar sem þær eru ekkert veðsettar," sagði Jóhann.

Fundur bæjarstjórnar í Kópavogi stóð enn yfir, og mál Sunnuhlíðar er varðar framsal á lóðum, var því óafgreitt þegar fréttatíminn hófst klukkan 18:30.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×