Erlent

Vilja ekki túrista í íbúðahverfi Barcelona

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Árlega koma 7,5 milljónir ferðalanga til Barcelona á Spáni.
Árlega koma 7,5 milljónir ferðalanga til Barcelona á Spáni. NORDICPHOTOS/AFP
Barcelonabúar eru búnir að fá nóg af túristum sem hegða sér eins og borgin sé skemmtistaður. Þúsundir tóku þátt í mótmælum á miðvikudagskvöld gegn fullum ferðalöngum sem margir taka á leigu herbergi eða íbúðir í íbúðahverfum sem íbúarnir segja að séu farin að líkjast sumarleyfisdvalarstöðum á Costa Brava. Á vef Dagens Nyheter er vitnað í Barcelonabúa sem segir ástandið versna með hverju árinu sem líður. Hlandlykt sé á götum úti og öskur og læti að næturlagi.

Túrismi í Barcelona hefur meira en sjöfaldast á undanförnum 20 árum og þangað koma árlega 7,5 milljónir ferðalanga. Flestir sem leigja út íbúðir sínar til ferðamanna hafa ekki tilskilin leyfi en margar íbúðanna eru leigðar í gegnum vefinn Airbnb. Eftirlit með ólöglegri útleigu var hert fyrir nokkrum dögum.

Íbúar Barcelona eru 1,5 milljónir en sífellt færri fjölskyldur hafa ráð á að búa í borginni því leiguverð hefur snarhækkað. Barcelonabúum finnst að ferðamennirnir geti búið á hótelum þar sem hægt sé að vísa þeim burt hegði þeir sér ekki vel.

Haft er eftir rithöfundinum Marc Caellas að mesti vandinn sé fjöldi ferðamanna í tiltölulega lítilli borg eins og Barcelona. Ekki skipti máli hvort ferðamennirnir eyði miklu fé eða ekki. Aðalatriðið sé að þeim fækki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×