Innlent

Vesturleiðin opnaðist í dag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Dynjandisheiði í dag. Myndin var tekin ofan við Dynjandisvog.
Frá Dynjandisheiði í dag. Myndin var tekin ofan við Dynjandisvog. Mynd/Sigurður Guðmundur Sverrisson, Vegagerðinni.
Vesturleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, um sunnanverða Vestfirði, opnaðist um hádegisbil í dag þegar vegagerðarmenn luku við að ryðja Dynjandisheiði. Áður hafði Hrafnseyrarheiði opnast í gærmorgun.

Óvanalegt er að þessar torfærustu heiðar Vestfjarðavegar opnist í marsmánuði. Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, segir þær venjulega opnast á milli 15. og 20. apríl. Þetta sé um þremur vikum fyrr í ár.

Frá snjómokstri á Dynjandisheiði í dag, skammt ofan við brúna yfir Dynjandisá.Mynd/Sigurður Guðmundur Sverrisson, Vegagerðinni.
Lítill snjór reyndist vera á Dynjandisheiði. Hrafnseyrarheiði var sömuleiðis snjólítil sunnanmegin í Skipadal, þar sem oft hefur verið mesta snjóstálið. Talsverður snjór var hinsvegar norðanmegin í Hrafnseyrarheiði þar sem ekið er upp úr Brekkudal í Dýrafirði.

Frá snjómokstri á Hrafnseyrarheiði í gær. Myndin er tekin í efstu brekkunni að norðanverðu, Dýrafjarðarmegin.Mynd/Sigurður Guðmundur Sverrisson, Vegagerðinni.
Opnun heiðanna þýðir að vegalengdir styttast verulega milli byggða á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum. Það hefur til dæmis afgerandi þýðingu fyrir starfsmenn fiskeldisfyrirtækja, eins og Arctic Fish. Leiðin milli starfsstöðva fyrirtæksins í Dýrafirði og Tálknafirði er um 520 kílómetrar um Djúpveg með heiðarnar lokaðar. Leiðin styttist niður í 110 kílómetra þegar þær opnuðust í dag.

Horft til norðurs af Dynjandisheiði ofan Dynjandisvogs í dag. Lítill snjór er á heiðinni og telja vegagerðarmenn að megnið af honum sé tiltölulega nýfallinn.Mynd/Sigurður Guðmundur Sverrisson, Vegagerðinni.
Hrafnseyrarheiði var rudd í gær. Heiðin var einnig mokuð í síðustu viku en lokaðist þá aftur.Mynd/Sigurður Guðmundur Sverrisson, Vegagerðinni.

Tengdar fréttir

Þúsund kílómetra bíltúr til að heimsækja nágranna á Vestfjörðum

Formaður bæjarráðs Ísafjarðar segir ástand samgöngumála á Vestfjörðum ömurlegt og ríkisstjórnin geti ekki skýlt sér á bak við hrunið þegar loforð um úrbætur séu svikin. Hann nefnir dæmi um starfsmenn fiskeldisstöðvar sem þurfa að aka yfir þúsund kílómetra milli tveggja fjarða þótt aðeins þrjátíu kílómetra loftlína sé þar á milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×