Innlent

Verðandi mæður fresta gangsetningu fyrir hærri greiðslur

Sveinn Arnarsson skrifar
HIldur Guðmundsdóttir, verðandi móðir, segir reglugerðarbreytinguna ósanngjarna.
HIldur Guðmundsdóttir, verðandi móðir, segir reglugerðarbreytinguna ósanngjarna.
Dæmi eru um að mæður hafi frestað gangsetningu og reyni allt hvað þær geta til að fresta fæðingum fram að 15. október þegar nýjar reglur taka gildi um fæðingarorlofsgreiðslur. Foreldrar sem eignast barn fyrir 15. október geta orðið af hundruðum þúsunda króna og því mikið í húfi. Foreldrar eru stressaðir yfir stöðunni.

Nýjar reglur sem ríkisstjórnin samþykkti fela í sér hækkun hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi úr 370.000 krónur í 500.000 krónur á mánuði. Fæðingarstyrkur og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka einnig.

„Þetta er auðvitað algjört rugl að setja mann í svona stöðu á lokametrum meðgöngunnar,“ segir Hildur Guðmundsdóttir sem gengin er 38 vikur með barn sitt og vonar innilega að fara ekki af stað fyrr en eftir 15. október.

„Það er ekki sanngjarnt hvernig þetta er uppsett. Þetta getur skipt mig hundruðum þúsunda. Ég ligg bara fyrir og bíð eftir að 15. október gangi í garð.“

Mikil ólga er meðal verðandi foreldra þessa dagana vegna breytinganna. Eva Rós Ólafsdóttir félagsráðgjafi átti að fara í gangsetningu á föstudeginum 14. en lét fresta henni fram yfir helgi.

„Í fullu samráði við lækni og ljósmæður frestuðum við gangsetningu fram yfir 15. október því þetta hefur mikil áhrif á fjölskylduna fjárhagslega,“ segir Eva Rós.

„Þetta getur líka haft mikil áhrif á hvort faðir barnsins geti tekið fullt fæðingarorlof með barninu sínu.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×