Handbolti

Vera Lopes fór á kostum í naumum sigri ÍBV

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vera Lopes brýst hér í gegnum vörn Aftureldingar fyrr í vetur.
Vera Lopes brýst hér í gegnum vörn Aftureldingar fyrr í vetur. Vísir/ernir
ÍBV slapp með skrekkinn í 31-28 sigri á HK á heimavelli í 24. umferð Olís-deildar kvenna í dag en með sigrinum lyftir ÍBV sér upp í 5. sæti deildarinnar.

ÍBV hafði aðeins krækt í eitt stig í síðustu fjórum leikjum fyrir leik dagsins og hafði liðið hægt og bítandi færst neðar í töflunni.

Jafnræði var með liðunum framan af og gekk ÍBV illa að hrista sprækar HK-konur frá sér. Leiddi ÍBV í hálfleik 15-13 en HK var aldrei langt undan.

ÍBV tókst að bæta við forskotið í seinni hálfleik en líkt og í þeim fyrri voru gestirnir úr Kópavogi aldrei langt undan. Náðu þær að halda í við ÍBV en ekki að ógna forskoti þeirra og lauk leiknum með þriggja marka sigri ÍBV.

Vera Lopes var markahæst í liði ÍBV með 11 mörk en Drífa Þorvalsdóttir bætti við sex mörkum. Í liði HK var það Þórhildur Braga Þórðardóttir sem var atkvæðamest með 12 mörk en Sóley Ívarsdóttir kom næst með fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×