Innlent

Veiðar leyfðar á rjúpu í tólf daga

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rjúpnastofninn er í uppsveiflu. Þrátt fyrir það telja vísindamenn að takmarka verði veiðarnar.
Rjúpnastofninn er í uppsveiflu. Þrátt fyrir það telja vísindamenn að takmarka verði veiðarnar. visir/GVA
Fyrsti rjúpnaveiðidagurinn í ár verður 24. október. Veiðidagar verða tólf talsins og skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 24. október til 16. nóvember.

Náttúrufræðistofnun Íslands telur veiðiþol rjúpnastofnsins vera 48 þúsund fugla.

Í gildi er sölubann á rjúpum sem Umhverfisstofnun fylgir eftir.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, ákvað í fyrra að gefa út þriggja ára áætlun um veiðidaga rjúpu og er veiðitímabilið í ár í samræmi við þá áætlun.

Meginstefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær og að rjúpnaveiðimenn stundi hóflega veiði til eigin nota. Stundaðar eru rannsóknir og vöktun á stofninum og er stjórnkerfi rekið í því skyni að stýra veiðinni.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar á rjúpnastofninum sýna að varpstofn rjúpunnar hefur stækkað og var viðkoma fuglanna góð í sumar, enda stofninn í uppsveiflu.

Engu að síður bendir stofnunin á að afföll rjúpunnar séu viðvarandi há og hefur veiðidánartala hennar haldist stöðug um 10% og hefur því það markmið veiðistjórnunar, að draga úr heildarafföllum rjúpunnar, ekki náðst. Er því mikilvægt að ekki verði slakað á þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Meginþættir veiðistjórnunar á rjúpu hafa verið þrír; Í fyrsta lagi sölubann, í öðru lagi hvatning um hófsemi og að lokum sóknardagar og hefur heildarveiði rjúpu minnkað töluvert á undanförnum árum. Eru veiðimenn hvattir til að veiða ekki fleiri rjúpur en hver og einn þarf auk þess sem þeir eru beðnir að gæta þess að særa ekki fugl umfram veiði.

Veiðiverndarsvæði er áfram á SV-landi.

Veiðitímabilið skiptist á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:

Föstudaginn 24. október til sunnudags 26. október. Þrír dagar.

Föstudaginn 31. október til sunnudags 2. nóvember. Þrír dagar.

Föstudaginn 7. nóvember til sunnudags 9. nóvember. Þrír dagar.

Föstudaginn 14. nóvember til sunnudags 16. nóvember. Þrír dagar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×