Erlent

Varpa sprengjum á hermenn á Sínaískaga

þórgnýr einar albertsson skrifar
Herskáar sveitir hliðhollar ISIS hafa ráðist á herstöðvar í Egyptalandi undanfarna daga.
Herskáar sveitir hliðhollar ISIS hafa ráðist á herstöðvar í Egyptalandi undanfarna daga. nordicphotos/afp
Skæruliðasamtökin Sinai Province, sem hliðholl eru Íslamska ríkinu (ISIS), lýstu yfir ábyrgð á árásum á egypskar herstöðvar á Sínaískaga í gær. Árásir gærdagsins eru sagðar hafa orðið að minnsta kosti tíu hermönnum að bana en fréttastofa AP fullyrðir að um fimmtíu hermenn hafi látist.

Talsmaður egypska hersins, Mohamed Samir Abdel Aziz, sagði í gær að um sjötíu skæruliðar samtakanna hefðu ráðist á fimm herstöðvar á norðurhluta Sínaískaga. Talsmaðurinn sagði enn fremur að þrjátíu og níu skæruliðar samtakanna hefðu látist í árásunum.

Norðurhluti skagans á landamæri að Ísrael og Gasasvæðinu. Þar hefur herlið Egypta barist við herskáa íslamista árum saman en frá því herinn steypti Mohamed Morsi, úr flokki Bræðralags múslima, af stóli forseta Egyptalands hefur æ meiri hiti færst í átökin.

Sinai Province sóru Íslamska ríkinu hollustueið í nóvember en Íslamska ríkið hefur kallað eftir því að Ramadan, föstumánuður múslima, verði gerður að svokölluðum eldmánuði og hafa hvatt liðsmenn ISIS til sprengju- og sjálfsmorðsárása.

Síðan skilaboðin bárust fylkingum Íslamska ríkisins hefur verið ráðist jafnt á óbreytta borgara sem og herlið í Egyptalandi, Frakklandi, Kúveit og Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×