Innlent

Varar kjósendur við lélegum eftirlíkingum: „Þetta var nú bara til gamans gert“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. Vísir/GVA
Þorsteinn Víglundsson oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður skýtur á Bjarta framtíð í færslu á Facebook-síðu sinni í dag en þar segist hann hafa orðið var við að óprúttnir keppinautar Viðreisnar hafi gert tilraun til að stela einkennisorðum flokksins sem eru „Almannahagsmunir framar sérhagsmunum.“

Þorsteinn segir að við þessu sé bara eitt að segja og það er „að fólki ber að varast lélegar eftirlíkingar, sama hversu bjartri framtíð er lofað.“

„Þetta var nú bara til gamans gert. Maður má nú líka vera á léttu nótunum stundum. Þau voru að keyra út þessar auglýsingar um almannahagsmuni á móti sérhagsmunum en það eru einmitt einkunnarorð Viðreisnar. En ég setti þetta nú inn í léttu gríni,“ segir Þorsteinn í samtali við Vísi.

Viðreisn hefur undanfarið gert nokkuð úr því að reyna að fjarlægja sig frá Sjálfstæðisflokknum en aðspurður segir Þorsteinn að flokkurinn sé ekki að reyna að fjarlægja sig frá Bjartri framtíð.

„Nei, alls ekki. Við höfum verið sammála um margt og með ólíkar skoðanir á öðru sem svo sem kemur ekkert á óvart. Þarna eru tvö frjálslynd miðjuöfl en þetta var nú meira bara til gamans gert.“

Þess má geta að Brynhildur S. Björnsdóttir varaþingmaður Bjartrar framtíðar skrifar athugasemd við færslu Þorsteins:

„HAHAHA...ertu að djóka? Við erum búin að tala um sérhagsmuni vs almannahagsmuni frá upphafi ;) En alltílæ...því fleiri sem vilja berjast fyrir því betra segi ég. Megi Viðreisn farnast sem allra best í því. Og Bjartri framtíð...og bara öllum öðrum sem er alvara í því. En óprúttið er BF ekki. Svo það sé sagt.“

Þorsteinn segir kosningabaráttu Viðreisnar ganga vel þó að það sé auðvitað beðið eftir því að þingi fari að ljúka svo að kosningabaráttan geti komist almennilega af stað og sviðsljósið fari frekar að beinast að kosningamálunum en þjarkinu inni á þingi eins og hann orðar.

„Það er auðvitað heppilegra til þess að kjósendur geti glöggvað sig á þeim kostum sem eru í boði að þingið fari að ljúka vinnu sinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×