Innlent

Varaformaður Viðreisnar segir ekkert fast í hendi með þriggja flokka stjórn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður Viðreisnar segir ekkert fast í hendi með myndun þriggja flokka stjórnar.
Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður Viðreisnar segir ekkert fast í hendi með myndun þriggja flokka stjórnar.
Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, segir að viðræður milli Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar séu ekki komnar svo langt að hægt sé að segja að verið sé að mynda ríkisstjórn.

„Ég myndi ekki segja að það sé komið svo langt. Það eru engar viðræður þannig séð í gangi, Það eru bara þreifingar í gangi eins og forsetinn lagði til, að allir myndu hringja sín á milli og hittast ef ástæða væri til og ræða málin og skoða. En það er ekkert fast í hendi, alls ekki. Fólk er bara að ræða sín á milli hvað er hægt að gera,“ segir Jóna Sólveig í samtali við Vísi.

Sjá einnig:Benedikt um stjórnarmyndun: „Meira í gangi en menn halda“

Í frétt sem birtist á Kjarnanum fyrr í dag er því haldið fram að ný ríkisstjórn virðist vera að myndast og að viðræður milli flokkkana hafi farið á fullt um helgina og að fyrir liggi málamiðlunartillögur í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum sem allir geti sætt sig við.

Jóna Sólveig segir hins vegar að einungis formenn flokkanna þriggja hafi fundað um helgina og að engin málefnavinna hafi átt sér stað.

„Það var ekki fundað í neinum vinnuhópum eða neitt svoleiðis enda málið ekki komið á það stig.“

Sjá einnig:Þingmaður Viðreisnar segir stjórn A, C og D æskilegasta kostinn

Aðspurð hvort að Viðreisn hyggist halda viðræðum áfram við Sjálfstæðisflokkinn og Bjarta framtíð segir hún að ekkert sé fast í hendi.

„Þreifingar halda áfram á milli allra flokka. Það er ekkert fast í hendi með þriggja flokka stjórn. Fólk er að reyna að ná einhverri lausn til að mynda stjórn. Það er svo ekki komið neitt í ljós með það hvernig hún verður samsett.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×