Innlent

Varað við ferðum að gosstöðinni

Mynd Pjetur
Nóttin var róleg í nágrenni gosstöðvanna og virðist gosið í rénun. Lögreglan varar við ferðum að gosstöðinni því ennþá kemur sprengjuvirknin í hviðum og öflugar sprengingar inn á milli. Er fólk beðið um að fara ekki nær gosstöðinni en að skála Jöklarannsóknafélagsins sem er í um 6 kílómetra fjarlægð.

Björgunarsveitarmenn hafa farið á milli bæja á svæðinu og meta með íbúum áhrif gossins og það sem er framundan við hreinsunar og uppbyggingarstörf.

Á fundi vísindamanna í Skógarhlíð í morgun kom fram að gosórói hefur farið minnkandi og er ekki lengur um að ræða samfelldan gosmökk. Ekki búist við miklu öskufoki. Gjóskuframleiðsla er óveruleg og er að mestu um að ræða gjóskufok á sunnanverðum jöklinum.

Að sögn sérfræðinga veðurstofunnar mældist um klukkan 21:00 í gærkvöldi strókur í um 7 kílómetra hæð og þá mældust tvær eldingar.

Milli klukkan 02:10 og 02:30 kom strókur sem mældist upp í 12 kílómetra hæð á radar og 12 eldingar mældust.

Klukkan 03:30 mældist virkni í 5 kílómetra hæð á radar sem er talinn hafa verið gufustrókur.

Síðan þá hefur ekkert mælst á radar og sjónarvottar á svæðinu upplýstu um að komið hafi litlir strókar upp í 100-300 metra hæð, sem eru mest megnis gufustrókar, en ösku megi þó sjá öðru hvoru. Strókar sem fara upp í þessa hæð, hafa ekki áhrif á flugumferð, einungis á nær umhverfis sitt. Gosóróinn minnkaði mjög mikið upp úr 21:15 í um 30 mínútur

Upp úr klukkan 02:00 féll hann afur niður og hefur verið mun minni síðan.

Ekki er hægt að útiloka að öflugri ösku strókar geti komið fyrirvaralaust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×