Innlent

Var hnoðaður í 49 mínútur með hjartahnoðtækinu Lucasi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá afhendingu tækisins á Selfossi í dag, formenn Lionsklúbbanna, ásamt sjúkraflutningamönnum og forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Frá afhendingu tækisins á Selfossi í dag, formenn Lionsklúbbanna, ásamt sjúkraflutningamönnum og forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Við fórum í útkall í sumar þar sem maður á Selfossi hafði farið í hjartastopp. Við notuðum hjartahnoðtækið Lucas, sem við vorum þá með í láni og notuðum tækið í 49 mínútur á manninn, sem kom til baka og er byrjaður að vinna aftur eftir áfallið. Þetta tæki er algjört draumatækið fyrir sjúkraflutningamenn enda bætir það hnoðgæðin en gott hnoð frá einum aðila varir aldrei lengur en tvær mínútur“, segir Ármann Höskuldsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Í dag fengu sjúkraflutningamenn á Selfossi afhent Lucas tæki frá sex Lionsklúbbum á Suðurlandi að andvirði 2,5 milljónir króna en tækið er sjálfvirkt hnoðtæki.  

Gefendur eru Lionsklúbburinn Embla á Selfossi, Lionsklúbbur Selfoss, Lionsklúbburinn Geysir í Uppsveitum Árnessýslu, Lionsklúbburinn Eden í Hveragerði, Lionsklúbburinn í Laugardal og Lionsklúbburinn Skjaldbreiður í Grímsnesi.

„Lucas kemur alveg í stað fyrir þann sem hnoðar og viðheldur fullkomnu hnoði í langan tíma svo lengi sem hann hefur rafmagn. Tækið spennist utan um sjúklinginn og hnoðar hann með tjakki sem gengur niður á brjóstið og veitir þannig  jafnt og stöðugt hjartahnoð sem getur aukið lífslíkur sjúklings,“ bætir Ármann við. 

Sjálfvirka hjartahnoðtækið Lucas.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×