Erlent

Vantraust samþykkt á forsætisráðherra Túnis

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hinn 67 ára gamli Habib Essid í pontu túniska þingsins þegar tillagan var til umræðu.
Hinn 67 ára gamli Habib Essid í pontu túniska þingsins þegar tillagan var til umræðu. vísir/epa
Túniska þingið samþykkti nú í kvöld vantrauststillögu á ríkisstjórn Habib Essid. 118 þingmenn samþykktu tillöguna, 27 sátu hjá og þrír studdu áframhaldandi setu hennar. AFP greinir frá.

Aðeins er rétt rúmt hálft ár síðan ríkisstjórn Essid tók við í landinu. Síðan þá hefur hún þurft að sitja undir ásökunum um að gera ekki nóg í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum.

Rúmt ár er síðan 39 létust í árás í landinu og er það mat stjórnarandstöðunnar að við þetta ástand verði ekki búið lengur. Að auki létust 22 í árás í mars í fyrra og þrettán í sjálfsvígssprengjuárás í nóvember. Í ofanálag hefur efnahagur landsins mátt muna fífil sinn fegurri.

Pressað hefur verið á Essid að segja af sér síðan forseti landsins, Beji Caid Essebsi, kom fram í ríkissjónvarpi Túnis og gagnrýndi störf hans. Það ávarp átti sér stað í síðasta mánuði.

„Ég mun segja af mér ef vantraust verður samþykkt en ella mun ég halda áfram að starfa fyrir þjóðina,“ hafði Essid látið hafa eftir sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×