Körfubolti

Vandræði Knicks halda áfram: Noah dæmdur í 20 leikja bann

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Noah hefur ekki fundið fjölina í treyju Knicks.
Noah hefur ekki fundið fjölina í treyju Knicks. Vísir/getty
Það er óhætt að segja að fyrsta tímabil Joakim Noah í herbúðum New York Knicks hafi ekki gengið eins og í sögu en eftir slappa frammistöðu í allan vetur var hann í dag dæmdur í 20 leikja bann af deildinni fyrir ólöglega lyfjanotkun.

Noah samdi síðastliðið sumar við New York Knicks eftir níu ár í herbúðum Chicago Bulls sem valdi hann á sínum tíma með níunda valrétt í nýliðavali NBA-deildarinnar árið 2007.

Skrifaði hann undir fjögurra ára samning sem hljómaði upp á 72 milljónir dollara eða tæplega átta milljarða íslenskra króna en hann er með 5 stig og 8,7 frákast að meðaltali í leik í vetur.

Hefur honum aldrei tekist að sýna sitt rétta andlit í treyju Knicks eftir að hafa verið valinn í úrvalslið deildarinnar 2014 ásamt því að vera valinn varnarmaður ársins sama ár.

Mun hann því aðeins taka þátt í 46 leikjum af 82 á þessu ári en hann tók aðeins þátt í 29. leikjum af 82 á síðasta tímabili sínu í treyju Chicago Bulls.

Noah hefur ekki leikið með liði Knicks í tæplega tvo mánuði og var vitað að hann myndi missa af síðustu tíu leikjum tímabilsins en hann mun ásamt því byrja næstu leiktíð í banni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×