Viðskipti innlent

Valur kveður Fréttatímann og tekur við Grapevine

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Valur Grettisson, nýr ritstjóri Grapevine.
Valur Grettisson, nýr ritstjóri Grapevine.
Valur Grettisson hefur verið ráðinn ritstjóri Reykjavík Grapevine. Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni. Hann tekur við starfinu af Jóni Trausta Sigurðarsyni.

Ritstjóraskipti hafa verið nokkuð tíð hjá Grapevine undanfarin misseri. Haukur S. Magnússon hætti störfum í febrúar í fyrra í kjölfar þess að vera sakaður um kynferðislega áreitni. Haukur hafði þá gegnt ritstjórastarfinu í um hálft ár en árin fjögur á undan hafði Anna Andersen verið ritstjtóri blaðsins.

Helga Þórey Jónsdóttir tók við af Hauki og gegndi starfinu þar til í september. Síðan hefur Jón Trausti gegnt starfinu.

„Stefnan er auðvitað að gera skemmtilegt blað skemmtilegra. Grapevine hefur þann ómetanlega kost að geta skoðað íslenskt samfélag utan frá, og hefur verið skemmtilega gagnýnið í gegnum tíðina,“ segir Valur.

„Helsti styrkleiki blaðsins er þó tvímælalaust öflug menningarumfjöllun sem við viljum gera enn öflugri, enda bestra leiðin fyrir ferðamenn og aðra til þess að kynnast landi og þjóð,“ segir ritstjórinn sem þakkar félögum sínum á Fréttatímanum fyrir samstarfið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×