Lífið

Valdimar með nýtt myndband

Gunnar Leó Pálsson skrifar
„Við erum að klára upptökur þessa dagana, það er bara smotterí eftir og við vonumst til þess að geta gefið út nýja plötu í haust,“ segir Valdimar Guðmundsson, söngvari hljómsveitarinnar Valdimars.

Sveitin frumflytur hér nýtt myndband við lagið Læt það duga en það er fyrsta smáskífulagið sem lítur dagsins ljós af væntanlegri plötu.

Kristinn Guðmundsson tók upp myndbandið og hinn ótrúlega myndarlegi Atli Þór Annelsson leikur stórleik í myndbandinu,“ segir Valdimar en myndbandið sýnir einnig sveitina að störfum í hljóðveri.

Þeir félagar hafa mikið verið í hljóðveri síðan í janúar. „Þetta mikla rigningarsumar hefur lítið farið í okkur, við höfum verið svo mikið inni í stúdíói,“ bætir Valdimar við. Hann segir nýju plötuna vera ögn bjartari, léttari en jafnframt rólegri en fyrri plötur. „Ásgeir keypti sér kassagítar fyrir upptökurnar og það gæti verið að kassagítarinn lýsi efnið upp,“ segir Valdimar og hlær, en kassagítar er að finna í lögum sveitarinnar í fyrsta sinn á þessari plötu.

Sveitin hefur í hyggju að koma fram á nokkrum tónleikum seinni partinn í ágúst en tveir meðlimir sveitarinnar eru í námi á erlendri grundu og setur það örlítið strik í reikninginn hvað varðar tónleikahald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×