Viðskipti innlent

Valdamiklum konum í stjórnun fjölgar ekki

Haraldur Guðmundsson skrifar
Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum stórra fyrirtækja, sem áttu eignir yfir einn milljarð króna, lækkaði úr tíu prósentum árið 2014 í níu í fyrra.
Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum stórra fyrirtækja, sem áttu eignir yfir einn milljarð króna, lækkaði úr tíu prósentum árið 2014 í níu í fyrra. Vísir/GVA
Hlutfall kvenna sem gegndu framkvæmdastjórastöðum hjá stærstu fyrirtækjum landsins var níu prósent í fyrra og stóð í stað frá árinu á undan. Konur voru þá tólf prósent framkvæmdastjóra hjá meðalstórum fyrirtækjum líkt og árið 2015. Um þrettán prósent stjórnarformanna stórra fyrirtækja voru af kvenkyni og 17 prósent hjá meðalstórum. Í báðum stærðarflokkunum jókst hlutur kvenna um eitt prósentustig milli ára en engin breyting varð á hlutdeild þeirra í stjórnarsætum fyrirtækja.

Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Creditinfo tók saman fyrir Markaðinn. Í þeim sést að hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum stórra fyrirtækja, sem áttu eignir yfir einn milljarð króna, hefur lækkað úr tíu prósentum árið 2014 í níu í fyrra. Hjá meðalstórum fyrirtækjum hefur sama hlutfallið haldist óbreytt síðustu þrjú ár. Konur áttu 24 prósent stjórnarsæta í stórum fyrirtækjum í lok árs 2016 og 18 prósent hjá meðalstórum.

„Í öllu falli eru þetta slæmar tölur og tölur um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra finnst mér sýna berlega að enn er mjög langt í land með að konur komist með tærnar þar sem karlar hafa hælana þegar völd í íslensku atvinnulífi eru skoðuð,“ segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo Lánstrausts, bendir á að á sumum sviðum sé jákvæð þróun en hún sé alltof hæg. Fréttablaðið/GVA
„Sáralítil þróun“

Flokkurinn stór fyrirtæki nær í tölum Creditinfo yfir 857 félög. Meðalstóru fyrirtækin voru alls 1.866 talsins og áttu öll í lok síðasta árs eignir frá 200 milljónum og upp að einum milljarði króna. Lítil fyrirtæki, sem verða ekki sérstaklega skoðuð hér, áttu undir 200 milljónum. Taka ber fram að 5.190 félög enduðu ekki í neinum stærðarflokki þar sem þau hafa ekki skilað inn upplýsingum um eignir til fyrirtækjaskrár. Fyrirtækin sem um ræður eru öll einkahlutafélög eða hlutafélög sem hafa skilað inn ársreikningi fyrir 2015 eða síðar.

Konur voru samkvæmt tölunum framkvæmdastjórar í 77 stórum fyrirtækjum af þeim 857 sem fylltu flokkinn. Þær áttu 223 framkvæmdastjórastöður í meðalstórum fyrirtækjum. Þrettán prósenta hlutdeild í stjórnarformennsku í stórum fyrirtækjum skilar 111 sætum og kona var æðsti stjórnandi í 317 af 1.866 meðalstórum félögum.

„Það er tvennt sem blasir við. Annars vegar að þróunin hefur verið sáralítil og maður hefði ætlað að eftir að lög um kynjakvóta tóku gildi árið 2013 myndum við fara að sjá stíganda í þessu sem er ekki að gerast,“ segir Brynja og vísar í lög sem voru samþykkt árið 2010 um að hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn skyldi vera yfir 40 prósentum.

„Tilgangur laganna hlýtur að hafa verið að auka völd kvenna í þjóðfélaginu eða jafna völd kynjanna en síðan ef við skoðum til dæmis stór fyrirtæki og þá sérstaklega stjórnarformennina, sem eru eins og allir vita valdamesta hlutverkið í stjórnum, þá er hlutfallið ekki sérstaklega gott. Í stórum fyrirtækjum eru þrettán prósent stjórnarformanna konur en 17 prósent hjá meðalstórum,“ segir Brynja og heldur áfram:

„Það er augljóst að á sumum sviðum er einhver þróun en hún er alltof lítil og hæg. Með þessu áframhaldi verður komið jafnræði milli kynjanna í stjórnarformannssætum árið 2113. Barnabörnin okkar munu ekki einu sinni vinna á vinnumarkaði þegar jafnrétti verður orðið að veruleika með þessu áframhaldi.“

Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður og sérfræðingur í góðum stjórnarháttum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta eru vonbrigði“

Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður og sérfræðingur í góðum stjórnarháttum hjá Strat­egíu, segir tölur Creditinfo vera ákveðin vonbrigði. Út frá þeim sé ljóst að þróunin sé ekki einungis hæg heldur kalli hún á ný á umræðu um að auka enn hlut kvenna í stjórnun.

„Þetta eru vonbrigði og kallar á rýni hjá okkur öllum. Ég held að þetta segi manni það að hlutur kvenna í stjórnun aukist ekki frekar en orðið er af sjálfu sér, heldur gerist það með ákvörðunum sem hver og einn þarf að taka. Hvort sem þú ert að tala um fjárfesti, stjórnarmann eða aðra stjórnendur – að hver og einn ákveði hvorum megin veggjar hann ætlar að vera,“ segir Helga Hlín.

„Maður heyrir vel þegar maður er í hópi fólks hvort það er „inn“ að ræða aukinn hlut kvenna og hverjir eru tilbúnir í þá umræðu og hvenær hún er ekki velkomin. Fullt af karlmönnum hafa tekið ákvörðun um að vera virkir í að efla hlut kvenna og þá finnur maður strax hverjir eru búnir að átta sig á að annars vanti ákveðna þekkingu og bakgrunn. Svo eru hinir, bæði karlar og konur, þar sem þessi umræða á ekki upp á pallborðið. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki komið á þann stað að hver og einn stjórnandi og fjárfestir þurfi að taka þessa ákvörðun um hvar hann ætlar að vera í þessari umræðu og hvar hann ætlar að láta til sín taka. Hvort hagsmunum rekstrarins, hluthafa, viðskiptavina og samfélagsins alls sé betur borgið með því að þessi ákvörðun sé tekin og verkin látin tala. Það er auðvelt að vera meðvirkur og fljóta með og bíða eftir að hinir taki af skarið.“

Spurð um leiðir til að auka hlut kvenna enn frekar bendir Helga Hlín á að opin og skipuleg ráðningarferli séu alltaf til þess fallin að vanda ákvarðanatöku að þessu leyti. Einnig vísar hún til umræðu síðustu ára um tilnefninganefndir sem er getið í íslenskum leiðbeiningum um stjórnarhætti, en þær sjá um að tilnefna fyrir aðalfund frambjóðendur með breiða þekkingu og reynslu til stjórnarsetu. Helga Hlín segir þær hafa átt erfitt uppdráttar en að þar geti falist ákveðin lausn fyrir félög í dreifðri eigu. Þær skapi jafnframt áframhaldandi umræðu og rýni í breidd í stjórnun. Aðrir hafi nefnt til sögunnar hugmyndir um kynjakvóta í framkvæmdastjórnum fyrirtækja sem henni þyki mjög framúrstefnulegar.

„Ég held að svona umræða sé til þess fallin að minna okkur á að þetta er endalaus vinna, langhlaup, og að við þurfum að halda boltanum á lofti. Það er aftur á móti jákvætt að formönnum er að fjölga lítillega því þar hafa konur vægi við stefnumótun og ráðningar framkvæmdastjóra. En þetta er að gerast allt of, allt of hægt. Maður veltir því fyrir sér því nú hefur Ísland verið mjög framarlega í jafnréttismálum, hvort hugsanlega hafi orðið einhver viðspyrna við þróuninni. Að mönnum hafi þótt nóg um hlut kvenna, en í því felst útilokun á helmingi þjóðarinnar í stjórnun sem aldrei getur talist til heilla.“

Helga segir tölur Creditinfo sérstaklega athyglisverðar í ljósi þess að á síðustu vikum hafi tvær konur verið ráðnar í mikilvæg störf. Vísar hún þar annars vegar til ráðningar Landsbankans á Lilju Björk Einarsdóttur í starf bankastjóra og hins vegar ákvörðunar Viðskiptaráðs Íslands um að ráða Ástu Sigríði Fjeldsted sem nýjan framkvæmdastjóra ráðsins.

„Þarna fáum við tvær framúrskarandi konur í áberandi og mikilvæg stjórnunarstörf. Konur sem hafa kosið að hasla sér völl og tekist frábærlega upp á erlendum vettvangi. Þær velja þennan tímapunkt að koma heim af því að hér eru tækifæri. Svona ráðningar eru mikilvægar og eiga að vekja okkur af værum blundi um að við þurfum hvert og eitt að taka þessa ákvörðun og vera virkir þátttakendur.“

Vill breytingar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir ljóst að hlutdeild kvenna sé enn allt of lítil og að þróunin síðustu ár sé ekki góð.

„Þetta eru ekki nógu uppörvandi tölur. Framsýn og vel rekin fyrirtæki eiga að vita að fjölbreyttar stjórnir eru góðar stjórnir. Mér þætti æskilegt að myndin væri önnur og jafnari. Það er augljóst að eigendur fyrirtækja þurfa að halda vöku sinni í þessum efnum og að sjálfsögðu nýta krafta beggja kynja í auknum mæli. Annað er sóun í mínum huga og betur má ef duga skal,“ segir Halldór.

Halldór segir aftur á móti að varhugavert sé að byggja spár um þróun næstu ára og áratuga á reynslu síðustu ára. Íslenskt samfélag sé að taka ýmsum breytingum sem eigi án efa eftir að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum.

„Þar er um margbreytilega þætti að ræða. Til dæmis mun menntunarmynstur vafalítið hafa áhrif á næstu árum. Ef þú gefur þér að stjórnandinn í dag hafi verið í háskólanum fyrir 15-20 árum þá verður þróunin á annan veg á næstu árum. Í Háskóla Íslands eru núna 34 prósent karlar og 66 prósent konur. Betra jafnvægi í þessum efnum verður að nást,“ segir Halldór.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×