Innlent

Útvarp Saga spyr hvort þetta sé útvarpsmaður framtíðarinnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Pétur Gunnlaugsson segir um létt grín að ræða en þó með alvarlegum undirtón.
Pétur Gunnlaugsson segir um létt grín að ræða en þó með alvarlegum undirtón. Vísir/ÚtvarpSaga/GVA
„Þetta er náttúrlega huldukona,“ segir Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, um mynd sem Útvarp Saga birtir á Facebook-síðu sinni í dag. Myndin sýnir konu í búrku við hljóðnema í hljóðveri Útvarps Sögu og er spurt hvort útvarpsmenn framtíðarinnar muni líta svona út.

Pétur fer að skellihlæja þegar hann var spurður hvort þetta sé í raun Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, á myndinni. „Það er sextíu dollara spurningin eins og menn segja. Það er spurning hvað er að gerast þarna,“ segir Pétur í samtali við Vísi en vill ekki gefa upp hver er á myndinni.

Segir myndina vera háðsádeilu

Hann segir þetta vera háðsádeilu Útvarps Sögu á umræðuna um byggingu mosku í Reykjavík og fregnir af hugsanlegu fjárframlagi frá Sádi-Arabíu vegna framkvæmdanna.

Sjá einnig:Ekki þarf leyfi vegna milljóna frá Sádi Arabíu

„Þetta er orðið svolítið kostulegt þessi mál hvað er satt og hvað er rétt. Það er kannski ákveðin alvarleg undiralda þarna líka, en þetta er bara létt svona sjónarmið vegna þess að þetta orðin svolítið galin umræða um þetta allt saman. Það veit enginn hvað er að ske. Hér eru að koma peningar til landsins, það kannast enginn við hver á að fá þetta og það er ekki hægt að fá nein svör við þessu. Svo kemur borgarstjórinn í gær og hann er að fara að útskýra hvað megi taka við gegn ákveðnum skilyrðum. Ég verð bara að segja eins og er að þetta er allt frekar broslegt allt saman og menn verða auðvitað að taka þessu létt,“ segir Pétur.

Segir umræðuna enda í kjaftæði og rugli

Hann segist aðspurður ekki hafa áhyggjur af framtíð múslima á Íslandi en segist hafa áhyggjur af því hvernig umræðan um málefni múslima er orðin. „Það sem ég hef talað fyrir er að opna umræðuna um þessi mál og innflytjenda mál. Ég hef ekkert verið að gagnrýna múslima, ég vil bara hafa reglu í þessum málum,“ segir Pétur.  

Hvernig viltu opna umræðuna?

„Nú hef ég varpað fram að það megi hafa íhaldssöm viðhorf varðandi innflytjendur á Íslandi og ég hef sett mig þarna fremstan og sagt að ég er íhaldsmaður varðandi innflytjendur til Íslands. Ég hef haft þá skoðun, ekki tekið múslima fyrir frekar en aðra, við tryggjum landamærin og á okkur forsendum kemur fólk hingað til lands eins og í gamla daga. Það var alltaf flutningur á milli fólks og svo framvegis, þannig hef ég sett það upp. Þegar maður fer að taka tal á svona þá endar það bara í kjaftæði og rugli. Auðvitað þarf að marka ákveðna stefnu í þessum málum sem er ekki bara stjórnað af fólki sem vill opna landamærin hérna. “

Vill taka við innflytjendum á forsendum Íslendinga

Er ekki landamæraeftirlit á Íslandi?

„Jú, það er auðvitað landamæraeftirlit á Íslandi og við erum náttúrlega í Schengen, sem margir deila á. En það eru hér öfl í samfélaginu sem vilja opna og segja: Allir sem vilja koma til Íslands hvaðan sem er í heiminum eiga rétt á því og við eigum að taka við því fólki. Ég er ekki sammála þessu fólki,“ segir Pétur. Hann segist opinn fyrir að taka við innflytjendum en það verði að vera á forsendum Íslendinga.  

„Sumum finnst það eigingjarnt sjónarmið en það er allavega skylda stjórnvalda að hafa þetta þannig. Ég hef ekki tekið múslima sérstaklega fyrir hins vegar er umræðan orðin kostuleg og maður skilur ekki gæjana sem stjórna þessu af hverju þeir geta ekki lagt spilin á borðið og sagt eins og er að þeir eru að biðja um þessa peninga til að geta reist þetta hús sitt. Ég nenni ekki að kalla þá ljótum nöfnum, við gerum bara grín að þessu og verðum að gera það. Það verður bara að tala um þetta í gamansömum tón og þess vegna birtist manneskja þarna með hulið fyrir andlitið.  Þetta er kannski táknrænt fyrir það að umræðan í samfélaginu er hulin líka og við eigum ekki að draga fjöður yfir þetta eða fara í launkofa með þetta. Við eigum að hafa opna umræðu alveg eins og við sýnum andlit okkar.“

Vita lítið

En í ljósi þess að þið kallið eftir opinni umræðu verður þá ekki að taka umræðuna um hvort þið óttist að fólk í búrkum muni stjórna útvarpsþáttum í framtíðinni?

„Nei, það er ekkert verið að tala um að það verði. Við vitum ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi það. Við vitum ekkert hvort þessir hópar verði í meirihluta eftir áratugi. Þetta er fyrst og fremst sett fram í gamansömum tón.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×