Innlent

Útsendingar BBC hafnar aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Útsendingar BBC World Service eru hafnar aftur á Ísland og sér Vodafone á Íslandi um útsendinguna. Fréttastöðin er á FM-tíðninni 103,5 og er þegar komin í loftið. Þar að auki er stöðin aðgengileg á rás 3198 í IPTV sjónvarpsdeifikerfi Vodafone.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone en þar segir að fyrirtækið hafi gert samning við breska ríkisútvarpið um að hið fyrrnefnda sjái um dreifingu BBC World Service á höfuðborgarsvæðinu og um IPTV sjónvarpsdreifikerfi félagsins um land allt.

„Það er ánægjulegt að geta hafið útsendingar BBC World Service að nýju og ýtt þannig undir fjölbreytni á þessu sviði á Íslandi. Fréttastöðin á sér marga hlustendur hér á landi, enda stöðin þekkt fyrir vandaðar fréttaskýringar og þáttagerð frá öllum heimshornum. Vodafone og breska ríkissútvarpið eru einhuga um að tryggja útsendingar á stöðinni hér á landi til framtíðar,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone í tilkynningunni.

Peter Horrocks, forstjóri BBC World Service segir hlustendur á Íslandi hafa verið mjög trygga. „Það gleður okkur mjög að ná aftur til þeirra á öldum ljósvakans.“

365 sá áður um útsendingu BBC en tekin var ákvörðun um að endurnýja ekki útsendingarleyfið í byrjun júlí. Í framhaldi af því var stofnaður undirskriftarlisti á netinu sem nærri því þúsund manns skrifuðu undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×