Innlent

Útlendingar eiga um 2.000 hross á Íslandi

Sveinn Arnarsson skrifar
Ræktendur á Íslandi hafa selt hesta úr landi fyrir um 900 milljónir króna árlega síðustu árin.
Ræktendur á Íslandi hafa selt hesta úr landi fyrir um 900 milljónir króna árlega síðustu árin.
Útlendingar eiga 1.940 hross á Íslandi. Hrossum í erlendri eigu hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landssambands hestamannafélaga, segir þetta góða búbót fyrir hrossabændur.

Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni WorldFengs, upprunaættbók íslenska hestsins, eru það 813 útlendingar, bæði einstaklingar og einkahlutafélög, sem eiga þess 1.940 hross hér á landi.

„Þessi hross í eigu útlendinga eru fyrst og fremst spennandi ungviði, góðar hryssur í folaldseignum og hross í dýrari kantinum í tamningu og þjálfun. Það er ánægjulegt að íslenskir hestamenn hafa þarna fastar tekjur því það þarf að sinna þessum hrossum eins og öðrum.“

Þá segir Lárus útlendingana kaupa folatolla, tamningu og annað tilfallandi með erlendum gjaldeyri. „Þetta er mjög jákvæð fyrir þjóðarbúið,“ segir hann.

Sjá einnig: Íslenski hesturinn í aðalhlutverki í auglýsingaherferð Hermés

Ræktendur á Íslandi hafa selt hesta úr landi fyrir um 900 milljónir króna árlega síðustu árin. Skila hestaíþróttir, ásamt knattspyrnu, um tveimur milljörðum í gjaldeyristekjum árlega samkvæmt skýrslu um íþróttir á Íslandi sem gefin var út af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

„Ekki má gleyma að hestaeigendurnir koma hingað margir hverjir nokkrum sinnum á ári til að kíkja á hross og íslenska stóðhesta. Við eigum að efla þessa þjónustu og fjölga erlendum aðilum sem eiga hross hér á landi,“ segir Lárus Ástmar Hannesson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×