Innlent

Úthrópaður fyrir að segja hluti sem allir vita

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Ummæli Snorra um að hann hafi ferðast innan Schengen með Glock skammbyssu með 45 skotum í þremur fullhlöðnum magasínum í handfarangri hafa vakið athygli.
Ummæli Snorra um að hann hafi ferðast innan Schengen með Glock skammbyssu með 45 skotum í þremur fullhlöðnum magasínum í handfarangri hafa vakið athygli. Vísir
Formaður Landssambands lögreglumanna segist hafa verið rægður og úthrópaður fyrir hluti sem allir viti sem fylgist með stöðu mála í heiminum. Snorri Magnússon fór hörðum orðum um Schengen-samstarfið á Facebook í kjölfar hryðjuverkanna í París og sagðist hafa ferðast innan Schengen með hlaðna skammbyssu í handfarangri.

Almælt tíðindi

Í stöðuuppfærslu sinni setur Snorri hryðjuverkin í París í samhengi við skort á landamæraeftirliti innan Evrópu, eftirgjöf í öryggismálum, niðurskurð til löggæslunnar, skertar forvirkar rannsóknarheimildir og almenna linkind og umburðarlyndi Evrópu gagnvart innrás ósamrýmanlegra sjónarmiða lýð- og frjálsræðis.

Hér má sjá skjáskot af ummælum Snorra. Klikkaðu á myndina til þess að lesa textann.
Hann segist hafa verið kallaður fáviti og rasisti en staðreyndirnar liggi þó fyrir og fólk geti aflað sér allra upplýsinga á tveimur mínútum á internetinu. Hann hafi verið að ræða um þá hættu sem öfgamenn og öfgahópar hafi í för með sér alveg án tillits til trúarbragða. 

„Þetta hefur ekkert með nein trúmál að gera á einn eða neinn hátt,“ segir Snorri.

Sjá einnig: Innanríkisráðherra segist ekki skilja orð Snorra Magnússonar

Hann segir lögreglumenn í Evrópu óttaslegna vegna þessarar þróunar en stórfelldur niðurskurður til löggæslu bæti ekki úr skák. Leiðtogar ESB hafi hist á einum sex neyðarfundum til að ræða vanda Schengen frá því í maí en það sé alkunna að ytri landamærin virki ekki. Þetta hafi alloft komið fram í fréttum og eigi ekki að koma neinum á óvart.

„Ég hef verið kallaður illa upplýstur og illa gefinn og fleira í þeim dúr,“ segir hann. „Það er alveg ótrúlegt að maður geti ekki sagt hlutina eins og þeir eru án þess að þurfa að liggja undir óhróðri fólks sem slítur úr samhengi þá hluti sem ég er að tala um þarna. Þetta er kannski þannig að sannleikanum verður hver sárreiðastur.“

Með hlaðna skammbyssu í flugi

Ummæli Snorra um að hann hafi ferðast innan Schengen með Glock skammbyssu með 45 skotum í þremur fullhlöðnum magasínum í handfarangri hafa vakið athygli en meðal annars hafa menn bent á að þetta brjóti í bága við vopnalög. Snorri segist hinsvegar hafa verið við störf fyrir Sameinuðu þjóðirnar og verið í fullum rétti. Hann hafi haft öll tilskilin leyfi og gert hlutaðeigandi grein fyrir því að hann væri með skammbyssu. Viðbrögð flugfélagsins  hafi hinsvegar ekki verið í samræmi við reglur.

„En það sem ég er að benda á með þessu er þessi staðreynd, að regluverkið er flott og fínt en ef það er ekki til mannskapur eða fjármunir og annað til að fylgja því eftir, þá klikka hlutirnir.“


Tengdar fréttir

Vopnin mega ekki vera hlaðin

Í 21. grein vopnalaga er sérstaklega tiltekið að sá sem fer með eða notar skotvopn skuli ætíð gæta fyllstu varúðar. Við burð og flutning á skotvopnum milli staða skuli þau vera óhlaðin og í umbúðum. Brot gegn lögum þessum og reglum varða sektum eða fangelsi allt að 4 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×