Innlent

Útfararstemning yfir flashmob í Smáralind

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
„Við erum kannski sérstaklega að mótmæla niðurskurðinum á Rás 1. Stöðin hefur hýst allar tónlistarstefnur til dæmis gömlu lögin, nútímatónlist, klassíska tónlist og djass.“
„Við erum kannski sérstaklega að mótmæla niðurskurðinum á Rás 1. Stöðin hefur hýst allar tónlistarstefnur til dæmis gömlu lögin, nútímatónlist, klassíska tónlist og djass.“
Tónlistarfólk úr öllum áttum safnaðist saman klukkan hálf fimm í Smáralind í dag og söng saman lagið Heyr himnasmiður, til þess að mótmæla niðurskurðinum á RÚV. „Það var útfararstemning yfir þessu,“ segir Magnús Ragnarsson, kórstjóri og tónlistarmaður, en hann var einn þeirra sem tók þátt í því sem kallað er „flashmob“.

Magnús segir stöðuna mjög alvarlega og yfirlýsingar hafi borist alls staðar að úr heiminum þar sem hvatt er til þess að hætt verði við þessar aðgerðir. „Við erum kannski sérstaklega að mótmæla niðurskurðinum á Rás 1. Stöðin hefur hýst allar tónlistarstefnur, til dæmis gömlu lögin, nútímatónlist, klassík og djass.“

Tónlistarmenn hafi verulegar áhyggjur af niðurskurðinum enda hafi Rás 1 staðið fyrir það sem aðrar stöðvar gera ekki. „Án þess að vera að setja út á aðrar stöðvar,“ segir Magnús.

„Ég tala ekki fyrir hönd allra, en eftir þennan niðurskurð eru til 4 og hálfur milljarður og það er fáránlegt að þetta sé það fyrsta sem er tekið. Af hverju að skera niður á þessu sviði en ekki frekar þar sem RÚV er í beinni samkeppni við aðra fjölmiðla?,“ spyr hann. 

„Það er svo mikilvægt að standa vörð um Rás 1, þar hefur tónlistinni verið sinnt vel. Helmingi dagskrárgerðarfólksins hefur verið sagt upp og ég sé ekki hvernig stöðin á að geta sinnt hlutverki sínu núna. Forgangsröðunin er fyrir neðan allar hellur,“ segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×