Innlent

Uppsögnin kostar fimmtán milljónir hið minnsta

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Uppsögn Þorgeirs Eyjólfssonar á starfi forstjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna kostar sjóðinn fimmtán milljónir hið minnsta. Það tekur mánaðarlífeyrisgreiðslu 800 láglaunamanna að greiða fyrir starfslok hans.

Þorgeir Eyjólfsson hefur gegnt starfi forstjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna í um aldarfjórðung. Hann sagði starfi sínu óvænt lausu í morgun. Hann segir á fréttavef Morgunblaðsins í dag að ákvörðunin sé tekin í framhaldi nýlegra breytinga í baklandi sjóðsins, en útskýrir ekki nánar hvaða breytingar það eru. Fréttastofa náði ekki sambandi við Þorgeir í dag.

Þorgeir var með um 30 milljónir króna í laun sem forstjóri sjóðsins á síðasta ári og hafði auk þess til umráða Cadilac lúxusjeppa sem kostar lífeyrissjóðinn um 300 þúsund krónur á mánuði.

Helgi Magnússon, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, staðfesti í samtali við fréttastofu nú síðdegis að Þorgeir fengi sex mánaða uppsagnarfrest sinn greiddan líkt og venja væri með forstjóra sem hefðu verið 25 ár í starfi, þó hann hefði sjálfur sagt starfinu lausu. Þá heldur Þorgeir einnig lúxusjeppanum í boði lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Því má ætla að uppsögn Þorgeirs kosti sjóðsfélaga ekki minna en fimmtán milljónir króna, fyrir utan bílafríðindin. Láglaunamaður í VR greiðir að meðaltali tæpar 19.000 krónur til sjóðsins í hverjum mánuði. Það þarf því lífeyrisgreiðslur tæplega 800 sjóðsfélaga til að dekka kostnað sjóðsins við uppsögn Þorgeirs Eyjólfssonar.

Þess má geta að Lífeyrissjóður verslunarmanna tapaði tugum milljarða króna á síðasta starfsári Þorgeirs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×