Skoðun

Uppboðsleið ekki til bóta

Teitur Björn Einarsson skrifar
Eitt helsta markmið uppboðsleiðar á aflaheimildum virðist vera að auka heimtur ríkissjóðs af sjávarútveginum og sníða af þá vankanta sem fylgja núverandi fyrirkomulagi við álagningu veiðigjalda. Fyrirkomulag við innheimtu veiðigjalda má endurskoða og tengja betur við afkomu greinarinnar sem dæmi. En skoða verður málið heildstætt.

Sjávarútvegurinn er arðbær í dag

Markmið fiskveiðistjórnunarkerfisins er í fyrsta lagi að tryggja að auðlindin sé nýtt á sjálfbæran hátt og er aðgengi að auðlindinni af þeirri ástæðu takmarkað. Í öðru lagi að tryggja að auðlindin sé nýtt á hagkvæman hátt. Sjávarútvegurinn er í dag arðbær atvinnugrein sem greiðir skatta og gjöld en það hefur ekki alltaf verið þannig og ekki sjálfgefið að nýting auðlindar gefi af sér arð. Í þriðja lagi er markmið kerfisins að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Ágætlega hefur gengið með fyrstu tvo þættina en horfast verður í augu við að ekki hefur gengið eins vel að treysta atvinnu og byggð í landinu. Fiskveiðistjórnunarkerfið verður að vera sveigjanlegt og innihalda betri og varanlegri rétt til handa sjávarbyggðum landsins til að verja sig fyrir áföllum. Því er úrbóta þörf alveg þangað til öllum markmiðum um sjálfbærni auðlindarinnar, arðsemi greinarinnar og eflingu atvinnu og byggðar í landinu er náð.

Mun ekki treysta byggð í landinu

En ekki er að sjá að uppboðsleiðin feli í sér slíkar nauðsynlegar úrbætur. Sú leið stuðlar ekki betur að verndun nytjastofna við Íslandsmið en nú er gert. Þá er óljóst hvernig uppboðsleiðin leiðir til meiri hagkvæmni í greininni en hætta er á að skuldsetning aukist. En aðalatriði er að uppboðsleiðin mun ekki treysta atvinnu eða byggð í landinu enda vandséð hvernig auknar álögur á helstu atvinnugrein landsbyggðarinnar og óvissa innan hennar styrki stöðu fólks sem þar býr og treysti atvinnu þess.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. ágúst 2016




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×