Erlent

Unnusti dæmdur sekur um morð á vin­sælum breskum ung­linga­bóka­höfundi

atli ísleifsson skrifar
Helen Bailey auðgaðist meðal annars á unglingabókum sínum um Electru Brown.
Helen Bailey auðgaðist meðal annars á unglingabókum sínum um Electru Brown. Lögreglan í Hertfordskíri
Dómstóll í Bretlandi hefur sakfellt hinn 56 ára Ian Stewart fyrir morðið á unnustu hans, barnabókarithöfundinum Helen Bailey, fyrr á árinu.

Stewart var dæmdur fyrir að hafa eitrað fyrir og kæft Bailey áður en hann kom líki hennar fyrir í falinni safnþró. Hann neitaði sök en grunur lék á að hann hafi myrt Bailey til að komast höndum yfir eignir Bailey sem metnar eru á fjórar milljónir punda, um 550 milljónir króna.

BBC segir frá því að réttarhöldin hafi staðið í sjö vikur, en lögregla kveðst nú ætla að rannsaka nánar dauða Diane, fyrrverandi eiginkonu Stewart, sem lést árið 2010. Hún var sögð hafa látist eftir að hafa fengið flogaveikiskast í garði Stewart-hjónanna.

Lögregla lýsir Stewart sem sjálfselskum, útskognum og kuldalegum og segir hann hafa blekkt Bailey þegar þau hittust á spjallsíðu á netinu í kjölfar dauða eiginmanns Bailey árið 2011. Sögðu saksóknarar að Stewart hafi ávallt haft í hyggju að komast yfir auð Bailey.

Sama dag og Bailey var myrt, 11. apríl á síðasta ári, reyndi Stewart að hækka þá mánaðarlegu fjárhæð sem flutt var frá einkareikningi Bailey og yfir á sameiginlegan reikning þeirra, úr 600 pundum í 4.000 pund. Síðar reyndi hann að selja íbúð Bailey í Gateshead.

Stewart lét lýsa yfir Bailey þann 15. apríl þar sem hann sagði: „Sama hvað hefur gerst, hvar sem þú ert, ég skal koma og sækja þig.“ Sagði hann Bailey hafa skilið eftir miða þar sem hún sagðist þurfa „rými“ og að hún hafi farið í bústað sinn í Broadstairs í Kent.

Lík Bailey fannst svo þremur mánuðum síðar í þró undir bílskúr við heimili þeitta í Royston ásamt hræi hundsins Boris.

Á morgun mun dómari kveða upp um refsingu yfir Stewart.

Helen Bailey auðgaðist mikið á unglingabókum sínum um Electru Brown.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×