Lífið

Unnsteinn Manuel vill ekki stríð Eyjamanna og fólks úr miðbænum

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Unnsteinn Manuel Stefánsson er söngvari hljómsveitarinnar Retro Stefson.
Unnsteinn Manuel Stefánsson er söngvari hljómsveitarinnar Retro Stefson. Vísir/Anton Brink
Unnsteinn Manuel Stefánsson talar máli tónlistarmanna sem tóku þá ákvörðun síðastliðinn fimmtudag að hætta við að spila á Þjóðhátíð vegna afstöðu Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, varðandi kynferðisbrot.

Mikil ónægja er meðal margra í samfélaginu yfir ákvörðun Páleyjar um að halda upplýsingum um fjölda kynferðisbrota sem upp kunna að koma á Þjóðhátíð leyndum. Þessi vinnubrögð voru fyrst tilkynnt fyrir hátíðina í fyrra og hyggst lögreglustjórinn viðhalda því vinnulagi þetta árið.

Sjö hljómsveitir og tónlistarmenn gáfu það út að þeir myndu ekki spila á hátíðinni héldist ástandið óbreytt.

Fyrir þessum hópi hefur farið Unnsteinn Manuel Stefánsson úr hljómsveitinni Retro Stefson. Segir hann að þessi hópur tónlistarmanna hafi reynslu af því að spila á ótal hátíðum um allan heim og á engri þeirra hafi kynferðisafbrot verið liðin. Hér sé stórt vandamál á ferð sem verði að tala um og bregðast við. 

„Við verðum að geta komið á svið með góðri samvisku. Við megum ekki líta á þetta sem stríð milli Eyjamanna og fólks í miðbænum. Umræðan hefur oft farið á það plan, einfaldlega vegna þess að fólk er hrætt við að taka þessa umræðu. Við áttum góðan fund með Elliða í gær. Það eru allir sammála um að það beri að gera sem best í þessu máli. Áður en ég fór á Þjóðhátíð fyrst þá hafði ég fordóma fyrir hátíðinni, ég viðurkenni það. Síðan fór ég árið 2012 og vá – þetta er stærsta hátíðin á Íslandi, þetta er alvöru þjóðhátíð, þarna er fullt af fjölskyldufólki að skemmta sér – og þá hurfu flestir fordómarnir hjá mér en það sat alltaf í mér að þessi umræða hefur aldrei verið tekin,“ segir Unnsteinn um ákvörðun sína og hinna tónlistarmannanna um að hætta við að koma fram á Þjóðhátíð síðastliðinn fimmtudag.

Eftir fund fulltrúa listamanna, formanns þjóðhátíðarnefndar og fulltrúa bæjaryfirvalda var ákveðið að grípa til táknrænna og raunverulegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir nauðganir á útihátíðum á borð við Þjóðhátíð. Hrint verður af stað átaki gegn kynferðisofbeldi og settur saman starfshópur. Óskað verður eftir fulltrúa frá Stígamótum í hópinn.

Í kjölfar þessa munu tónlistarmennirnir sem síðastliðinn fimmtudag ákváðu að draga sig út úr hátíðarhöldunum koma fram á hátíðinni.

„Við getum ekki stýrt því hvernig lögreglan vinnur og við ætlum ekkert að vera að halda henni í gíslingu. Það er áskorun frá okkur og Elliða að lögregluumdæmi hér í landinu samræmi verklag sitt varðandi upplýsingaskyldu og finni út hver er besta leiðin til þess að fara að þessum málum,“ sagði Unnsteinn eftir fundinn. 

„Við fundum mikinn vilja frá Vestmannaeyjabæ og þjóðhátíðarnefnd til þess að gera betur.“ En líkt og áður sagði þá verður stofnaður sérstakur starfshópur sem mun marka sér stefnu til næstu fimm ára og einnig munu listamenn, björgunarsveitir og aðrir gæsluaðilar á hátíðinni taka þátt táknrænni athöfn vegna átaksins. Mun hún fara fram á föstudagskvöldi hátíðarinnar. 

„Það er í rauninni mesti sigurinn fyrir okkur að umræðan sé tekin en ekki þögguð niður,“ segir Unnsteinn að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×