Innlent

Ungt fólk vill vinna í Evrópu

Um 85 prósent íslenskra ungmenna hafa áhuga á því að vinna í öðru Evrópulandi í framtíðinni. Þar af hafa rúm fjörutíu prósent áhuga á því að flytja til útlanda vegna vinnu til langs tíma. Þetta kemur fram í nýrri könnun Evrópusambandsins, Flash Eurobarometer on Youth, sem gerð var meðal ungs fólks í 31 Evrópulandi í byrjun ársins.

 

Hlutfall þeirra sem vilja flytja til útlanda vegna vinnu reyndist hæst meðal ungmenna á Íslandi, en Svíar, Búlgarar, Rúmenar og Finnar fylgja fast á hæla þeirra. Lægst var hlutfallið meðal ungra Tyrkja, en einungis fimmtán prósent þeirra hafa áhuga á því að flytja út landi.

 

Athygli vekur að 38 prósent ungra Íslendinga segjast hafa dvalið erlendis í að minnsta kosti mánuð vegna vinnu, náms eða sjálfboðastarfs. Þar eru ekki með talin ferðalög og frí. Hlutfallið er einungis hærra í Lúxemborg, þar sem 39 prósent hafa unnið erlendis. Ástæðurnar fyrir því að íslensk ungmenni höfðu ekki dvalið erlendis voru ýmist þær að áhuginn væri ekki fyrir hendi, fjárhagslegir erfiðleikar eða fjölskylduábyrgð.

 

Halldór S. Guðmundsson, lektor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, segir margar ástæður geta legið að baki því að svona hátt hlutfall ungs fólks vilji burt úr landi. Halldór hefur unnið mikið að rannsóknum á atvinnuleysi hérlendis og kennir á því sviði.

„Ísland er mjög alþjóðlegt land og það er ekkert nýtt. Við erum eyland, ferðumst mikið og erum snemma búin að gera ráð fyrir því að við munum líklega flytjast búferlum á einhverjum tímapunkti," segir Halldór. Hann segir þá umræðu sem hefur skapast um atvinnuleysi ungs fólks líka geta haft áhrif á löngunina til að leita á önnur mið. Hátt hlutfall þeirra sem eru tilbúnir til að flytja til útlanda til langs tíma bendi sérstaklega til þess.

 

„Það sem hefur einkennt ungt fólk án atvinnu, er að sá hópur hefur haft mjög lítið af tækifærum í allnokkurn tíma," segir Halldór. „Það sér ekki alveg í ljósið í göngunum hjá okkur enn þá eftir hrunið. En inn í þetta getur líka spilað ævintýraþrá og óskin um að komast í eitthvað betra og prófa eitthvað nýtt."

 

sunna@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×