Innlent

Ungmennaráð Grindavíkur vill byggja trampólínkörfuboltavöll

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Strandblakvöllurinn hefur laðað fólk á öllum aldri að ungmennagarðinum í blíðunni sem hefur verið í sumar.
Strandblakvöllurinn hefur laðað fólk á öllum aldri að ungmennagarðinum í blíðunni sem hefur verið í sumar. Mynd/Þorsteinn Gunnarsson
Ungmennaráð Grindavíkurkaupstaðar hefur verið starfandi í tvö ár og á þeim tíma hafa ungmennin svo sannarlega sett sinn svip á bæinn.

Á stóru svæði við grunnskóla bæjarins er búið að byggja ungmennagarð sem iðaði af lífi í allt sumar. Þar má meðal annars finna grillskýli, aparólu, kósýrólu og strandblakvöll.

„Maður tók eftir breytingum í sumar. Þá var fullt af fólki á öllum aldri á hverju kvöldi á svæðinu, sérstaklega í strandblakinu,“ segir Lárus Guðmundsson, sem var fyrsti formaður ráðsins.

Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda og menningarsviðs Grindavíkurkaupstaðarright
Byggingu garðsins er þó ekki lokið og nú á teikniborðinu svokallaður trampólínkörfuboltavöllur ásamt mínigolfvelli. „Þau eru mjög metnaðarfull,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs bæjarins um ungmennin. „Þau hafa átt hugmyndina sjálf og vinna að þessu hörðum höndum. Þetta eru sannarlega dýr verkefni en krakkarnir eru frjóir, mæla sjálfir og teikna upp hugmyndir sínar í stað þess að borga fyrir hönnun.“

Ungmennaráð hefur kynnt hugmynd sína að trampólínkörfuboltavelli fyrir bæjarstjórn en málið verður tekið fyrir á fundi hennar á næstu dögum. Þorsteinn er bjartsýnn á útkomuna en svona völlur kostar 10-20 milljónir. Völlurinn er eins og nafnið gefur til kynna; körfuboltavöllur með trampólínum í stað venjulegs undirlags.

Lárus Guðmundson, fráfarandi formaður ungmennaráðs Grindavíkurkaupstaðar
„Bæjarstjórnin hefur sýnt þessu mikinn áhuga og skilning. Það er líka gaman að sjá hvað ungmennin læra mikið af verkefninu; um stjórnsýsluna og lýðræðið,“ segir Þorsteinn.

Vonast er til að völlurinn komist í gagnið fyrir næsta sumar og verður það þá fyrsti trampólínkörfuboltavöllurinn á Íslandi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×