Erlent

Unglingsstúlka deyr eftir að hafa notað túrtappa í fyrsta skipti

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Bresk unglingsstúlka, Natahsa Scott-Falber, lést eftir að hafa notað túrtappa í fyrsta skiptið. Hún lést á Valentínusardeginum, 14. febrúar á þessu ári fimm dögum eftir að hún notaði túrtappann. Fréttamiðilinn Mirror segir frá.

Fjölskylda stúlkunnar heldur þessu fram og segir hana hafa verið ranglega greinda en því var haldið fram af læknum að hún hefði látist af völdum nóróveiru, sem er skæð magapest.

Síðustu fimm dagana áður en Natasha lést var hún með háan hita og þjáðist af svima, ælupest og niðurgangi.

Fjölskylda stúlkunnar telur að stúlkan hafi fengið eiturlost en slíkt sé mjög sjaldgæft.  Þau hafa meðal annars sett sig í samband við fyrirtæki sem framleiða túrtappa og segjast hafa fengið jákvæð viðbrögð frá þeim um að kynna áhrif og afleiðingar eiturlosta.

Eiturlost er bakteríusýking. Á hverju ári fá um 40 einstaklingar í Bretlandi einkenni eiturlosts. Sýkingin verður vegna þess að bakteríur úr einhverjum hlut blandast við blóð einstaklingsins.

Fjölskylda stúlkunnar saknar hennar mikið og segist ekki óska neinum að lenda í því að missa barnið sitt. „Hún elskaði tónlist og dreymdi um að leika í West End.“

Natasha lést að morgni Valentínusardags þar sem hún lá í rúminu sínu og horfði á uppáhaldssjónvarpsþáttinn sinn. Rétt áður en hún lést bað hún mömmu sína að hafa ekki áhyggjur, henni væri farið að líða mun betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×