Lífið

Ung íslensk tónskáld fá fjórar stjörnur

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Flott sneiðmynd - Þráinn kallar Ilan Volkov óopinberan sendiherra íslenskrar tónlistar.
Flott sneiðmynd - Þráinn kallar Ilan Volkov óopinberan sendiherra íslenskrar tónlistar. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta gekk stórkostlega, mikil fjölbreytni á þessum tónleikum og rosa flott sneiðmynd af því sem á sér stað í senunni,“ segir Þráinn Hjálmarson tónskáld en breska tímaritið The Guardian hefur birt fjögurra stjörnu dóm um flutning BBC Scottish Symphony Orchestra á verkum eftir hann og fleiri íslensk tónskáld.

Hljómsveitarstjóri var Ilan Volkov, aðalstjórnandi og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en tónleikarnir báru nafnið New Icelandic Voices.

Verk eftir þá Guðmund Stein Gunnarsson, Davíð Brynjar Franzson, Þráin, Hlyn Aðils Vilmarsson og Charles Ross, meðlimi tilraunatónlistarhópsins S.L.Á.T.U.R., voru flutt en gagnrýnandinn Kate Mollison segir að glettni og „DIY“-drifkraftur hópsins hafi greinilega fallið vel í kramið hjá Volkov.

Gagnrýnandinn segir öruggasta og hefðbundnasta verkið hafa verið Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur, sem hann segir jafnframt stærsta nafnið á listanum.

„Alveg magnað hvað Ilan hefur verið óopinber menningarsendiherra íslenskrar tónlistar. Það er óborganlegt í sjálfu sér. Hann fær hljómsveitina til að setja upp heila tónleika með íslenskum verkum sem er svo verðmætt, eftir höfunda í yngri kantinum og í einhverri tilraunastarfsemi,“ segir Þráinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×