Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Breiðablik - Fjölnir 2-2 | Jafntefli í Kópavoginum

Ingvi Þór Sæmundsson á Kópavogsvelli skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson með Illuga Þór Gunnarsson á hælunum í Kópavogi í kvöld.
Guðjón Pétur Lýðsson með Illuga Þór Gunnarsson á hælunum í Kópavogi í kvöld. Vísir/Stefán
Breiðablik og Fjölnir skildu jöfn, 2-2, í hörkuleik á Kópavogsvelli í fjórðu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta.

Fjölnismenn sýndu strax í fyrri hálfleik að staða þeirra í deildinni er engin tilviljun. Varnarleikurinn var sterkur og liðið átti í litlum vandræðum með máttleysislegar sóknaraðgerðir Breiðabliks.

Þegar gestirnir úr Grafarvogi voru með boltann sóttu þeir af krafti og áræðni. Guðmundur Karl Guðmundsson og Ragnar Leósson voru ógnandi og sá síðarnefndi komst næst því að skora fyrir Fjölni í fyrri hálfleik þegar Gunnleifur Gunnleifsson varði skot hans rétt fyrir utan vítateig í horn. Skömmu síðar átti Ragnar annað skot beint á Gunnleif.

Það kom því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Árni Vilhjálmsson kom Breiðabliki yfir á 28. mínútu með frábæru marki. Árni fékk boltann vinstra megin í vítateignum og skaut boltanum glæsilega á lofti framhjá Þórði Ingasyni í marki Fjölnis.

Heimamenn náðu betri stjórn á leiknum eftir markið; héldu boltanum betur og vörðust vel.

Staðan í hálfleik var 1-0, en Fjölnismenn jöfnuðu metin eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik þegar Guðmundur Karl Guðmundsson komst einn í gegn hægra megin í vítateignum og skoraði framhjá Gunnleifi.

Forystan entist þó ekki nema í sjö mínútur, því á 62. mínútu skoraði vinstri bakvörðurinn DavíðKristján Ólafsson með glæsilegu skoti upp í fjærhornið eftir stutta hornspyrnu. Frábærlega gert hjá þessum unga leikmanni sem var að skora sitt fyrsta mark í efstu deild.

Fjölnismenn létu þetta þó ekki á sig fá og héldu áfram að spila af þeim krafti og því öryggi sem einkenndi leik þeirra í kvöld. Ragnar komst grátlega nærri því að skora þegar skot hans beint úr aukaspyrnu small í markrammanum.

Gestunum úr Grafarvogi tókst svo að jafna á 73. mínútu, en þar var að verki Þórir Guðjónsson eftir mikinn barning í vítateig Breiðabliks.

Fleiri urðu mörkin ekki og liðin skiptu stigunum bróðurlega á milli sín.

Breiðablik er enn án sigurs eftir fjóra leiki. Líkt og fyrri þremur leikjunum á tímabilinu gekk liðinu bölvanlega að skapa sér færi. Mörkin tvö voru frábær, en fyrir utan þau var lítið að frétta í sóknarleiknum. Það var lítil tenging milli miðju og sóknar og leikmenn liðsins tóku of oft ranga ákvörðun á síðasta þriðjungi vallarins. Toppbaráttan sem Blikar ætluðu að blanda sér í virðist því heldur fjarlægur veruleiki þessa stundina.

Fjölnismenn spiluðu vel og ef það var eitthvað lið sem átti skilið að vinna leikinn, þá voru það Grafarvogsbúar. Vörnin var sterk með þá Hauk Lárusson og fyrirliðann Bergsvein Ólafsson í broddi fylkingar og liðið var ávallt hættulegt fram á við, en í sóknarleiknum fór mest fyrir Guðmundi Karli og Ragnari sem áttu báðir góðan leik. Það er vissulega lítið búið af mótinu, en Fjölnir lítur í augnablikinu ekki út eins og lið sem á eftir að falla.

Fjölnismenn eru með átta stig í 4. sæti deildarinnnar, en Breiðablik situr í því 10. með tvö stig.

Ólafur: Framfarir frá síðustu leikjum

"Þeir eru búnir að byrja þetta mót af miklum krafti, spilað með hjartanu og uppskorið mörg stig, þannig að það var alls ekkert vanmat í gangi hjá okkur," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 2-2 jafntefli gegn Fjölni í kvöld.

Breiðablik er enn án sigurs, en Ólafur var ánægður framfarirnar frá síðasta leik í Keflavík sem Blikar töpuðu 2-0.

"Það voru framfarir frá síðustu leikjum. Við vorum daufir í síðasta leik í Keflavík og sú ákefð sem til þurfti var ekki til staðar. Mér fannst vera meiri ákefð og kraftur í okkur lengstum í þessum leik, en við erum svolítið vondir við sjálfa okkur.

"Við eigum innkast í fyrsta markinu og það slökknar á okkur og í seinna markinu erum við ekki nógu ákafir í að koma boltanum í burtu. Fjölnismenn voru grimmari og skoruðu. Sama gildir í teignum hinum megin, þar vantar ógn fyrir framan markið," sagði Ólafur.

Blikar spiluðu 4-4-2 í kvöld, en hver var helsta ástæðan fyrir því?

"Uppstillingin í upphafi er kannski ákveðin vísbending en hún er ekki endanleg í gegnum leikinn. Okkur fannst þessi leikaðferð henta vel gegn Fjölnisliðinu sem hefur verið sterkt á miðsvæðinu.

"Þeir vinna mikið af boltum og við vildum þétta okkur og láta bakverðina sjá um að búa til breidd. Við vorum svo með tvo framherja sem áttu að herja á miðverði Fjölnis.

"Hvort það hafi tekist, er erfitt að segja. Miðað við úrslitin hefði það mátt vera betra en mér fannst spilamennskan vera betri. Við erum kannski ekki að spila þann fótbolta sem við höfum verið þekktastir fyrir lengstum, en það er ennþá maí og vellirnir bjóða ekki upp á það, þannig að við þurfum að grípa til annarra úrræða," sagði Ólafur að lokum.

Bergsveinn:Erum hundfúlir

"Við erum hundfúlir að hafa ekki unnið þennan leik. Þetta voru í raun tvö töpuð stig," sagði Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði Fjölnis, eftir jafnteflið gegn Breiðabliki.

"Mér fannst við heilt yfir vera betri. Þeir fá kannski eitt færi en mörkin koma eftir einhver draumaskot."

Fjölnir varðist vel en Blikar skoruðu tvö glæsileg mörk. Bergsveinn vildi þó meina að hans menn hefðu átt að koma í veg fyrir þau.

"Við fáum á okkur tvö skítamörk. Það var einbeitingarleysi í öðru markinu - það var hrikalegt. Við vissum að þeir myndu taka stutt horn og við hefðum átt að mæta honum (Davíð Kristjáni Ólafssyni). Hann hitti boltann vel og þetta var flott mark."

Fjölnismenn lentu tvisvar undir en jöfnuðu í bæði skiptin.

"Það er hörkukarakter í þessu liði og það var frábært að koma tvisvar til baka. Við höldum bara áfram. Við eigum KR næst. Við erum bara rólegir, komnir með átta stig og höldum áfram að safna í pokann," sagði Bergsveinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×