Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Breiðablik - Þór 3-1 | Breiðablik áfram eftir framlengingu

Anton Ingi Leifsson á Kópavogsvelli skrifar
Elfar Freyr skoraði í framleningunni.
Elfar Freyr skoraði í framleningunni. Vísir/daníel
Breiðablik tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins með sigri á Þór í framlengdum leik í kvöld, 3-1. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað, en Elfar Freyr Helgason og Árni Vilhjálmsson skoruðu mörkin í framlengingunni sem tryggði heimamönnum í 8-liða úrslitin. 

Blikarnir komust yfir eftir rúman klukkutíma leik, en héldu forystunni í einungis átta mínútur. Það var svo varnarmaðurinn Elfar Freyr Helgason sem kom Blikum yfir í framlengingunni og Árni Vilhjálmsson gerði svo út um leikinn þegar fimm mínútur voru eftir af framlengingunni. 

Bæði lið gerðu breytingar á sínu liði fyrir leikinn. Hjá Breiðablik voru tvær breytingar frá jafnteflinu gegn ÍBV, en Arnór Sveinn Aðalsteinsson var ekki í leikmannahópnum í dag og Tómas Óli Garðarsson fór á bekkinn. Andri Rafn Yeoman og Elfar Árni Aðalsteinsson komu inn í þeirra stað. Damir Muminovic var í stöðu vinstri bakvarðar, en þeir Jordan Halsman og Arnór Sveinn voru ekki með. 

Þórsarar gerðu eina breytingu frá því í jafnteflisleiknum gegn FH um síðustu helgi. Kristinn Þór Björnsson tók sér sæti á bekknum og Sigurður Marinó Kristjánsson, eða Evrópu-Siggi eins og hann er kallaður, fór á vinstri kantinn. Chukwudi Chijindu eða Chuck eins og flestir þekkja hann, sat á bekknum, en hann er i óða önn að verða klár í slaginn vegna meiðsla. 

Völlurinn var rennandi blautur og þeir sárafáu áhorfendur sem voru mættir vonuðust eftir skemmtilegum leik í bleytunni. Fyrri hálfleikur var hundleiðinlegur og aðeins eitt alvöru færi kom í fyrri hálfleik og það fengu Blikar. Sandor Matus sló skot Elfars Árna beint út í teiginn þar sem Guðjón Pétur var mætitr, en Matus varði meistaralega aftur. 

Það var líklega það eina markverða sem gerðist í fyrri hálfleik sem var afspyrnuslakur og bæði lið skorti meiri gæði til að gera betur og komast yfir, en staðan var markalaus í afspyrnu leiðinlegum fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik voru Blikarnir örlítið sterkari. Það var því ekki mikið gegn gangi leiksins þegar þeir komust yfir með marki frá Guðjón Pétri Lýðssyni eftir 63. mínútur. Flott sókn sem endaði með góðu marki, en góðar sóknir Blika voru ekki margar í dag.

Eftir rúman klukkutíma kom Þórður Birgisson inná og hann átti eftir að valda usla í varnarlínu Blika og breyta leiknum. Hann átti þátt í jöfnunarmarki Þórsara sem kom einungis átta mínútum síðar en hann lagði boltann á Jóhann Helga sem skoraði sitt sjötta mark í sumar. 

Ekki voru skorað fleiri mörk í venjulegum leiktíma og því varð að grípa til framlengingar. Það voru liðnar átta mínútur í framlengingunni þegar miðvörðurinn Elfar Freyr kom heimamönnum yfir með föstu skoti eftir hornspyrnu frá Guðjóni Pétri. 

Eftir það voru heimamenn skynsamir og lágu til baka og beittu skyndisóknum. Þeir sigldu sér í 8-liða úrslitin þegar fimm mínútur voru eftir af framlengingunni með marki frá Árna Vilhjálmsson og þá var leik lokið. 

Bæði lið héldu ágætlega boltanum úti á vellinum, en þegar það kom að því að skapa sér færi var lítið að frétta hjá báðum liðum. Það mætti því segja að leikurinn hafi verið stál í stál flest allar mínúturnar sem voru spilaðar í kvöld. Blikarnir gerðu þó út um leikinn í framlengingunni, en þeir virtust hafa aðeins meira á tanknum. 

Þjálfarar og allir aðrir í kringum Blikaliðið vonast til að þetta sé lyftistöng fyrir Blikaliðið, en þetta er einungis annar sigur Blika í sumar. Hinn kom einmitt líka í bikarnum, en þá vann liðið HK 2-1. 

Finnur Orri Margeirsson, fyrirliði Breiðabliks: Fannst við vera töluvert betri

,,Það er fyrir öllu að komast áfram. Mér fannst við vera spila vel og við áttum þetta svo sannarlega skilið

,,Þetta eru búnir að vera fínir leikir hjá okkur undanfarið, en úrslitin hafa ekki alveg verið að detta með okkur. Mér fannst við vera töluvert betri, það er enginn spurning."

Blikarnir voru oft á tíðum að halda boltanum vel innan liðsins en þegar það kom að því að búa til færi voru þeir oft á tíðum klaufar: ,,Við erum komnir oft í góða stöðu framarlega á vellinum og erum að spila vel. Það vantar oft bara smá yfirvegun, þolinmæði og smá ís í magann til að finna þessa síðustu sendingu. Ég var þrátt fyrir það ánægður með leikinn í dag."

,,Við erum dálítið að byggja á því sama og undanfarna þrjá leiki. Við erum að verða betri og betri með hverjum leiknum."

,,Það er alltaf markmiðið í bikarkeppni að fara alla leið. Við höfum gert þetta áður og þetta var eitt skemmtilegasta sem ég hef gert," sem átti sér ekki neina óskamótherja:

,,Ég man ekki alveg hvaða lið eru eftir í pottinum! Þetta kemur allt í ljós," sagði Finnur sem sagði að sínir menn þyrftu að vera á tánum í næsta leik gegn ferskum Víkingum. 

,,Víkingarnir eru búnir að vera mjög góðir. Ég hef ekki séð mikið til þeirra, en þeir hafa verið að ná í góð úrslit. Það verður mjög spennandi leikur," sagði Finnur Orri að lokum. 

Jóhann Helgi Hannessson, framherji Þórs: Ætlum að halda áfram að lemja á þeim

,,Það var ekki nægur kraftur í okkur. Þeir voru grimmari en við í kringum markið," sagði hundfúll Jóhann Helgi Hannesson, framherji Þórs, í leikslok. 

,,Þeir skoruðu tvö mörk eftir fráköst og það er ekki nægilega gott að við séum ekki klárir."

,,Eftir að þeir komast yfir förum við framar með liðið og fáum dauðafæri á okkur, en við fengum líka færi. Við erum óheppnir að klára ekki færin okkar í framlengingunni."

Gestirnir frá Akureyri fengu nokkur ágætis færi, en náðu ekki að nýta sér þau.

,,Það er klárt að við þurfum að nýta þessi færi ef við ætlum okkur eitthvað. Ef þú skorar ekki þá taparu."

,,Mér fannst okkar takast það sem við ætluðum að gera. Við ætluðum að liggja til baka og beita skyndisóknum. Við getum ekki kvartað yfir spilamennskunni, en við þurfum að fara nýta færin okkar og þá fer þetta að koma."

Næsti leikur Þórsara er fyrir norðan gegn Val. Jóhanni líst vel á þann leik: ,,Þeir töpuðu 3-0 í síðasta leik. Við ætlum að reyna taka þá í bólinu og halda áfram að lemja á þeim," sagði grjótharður Jóhann Helgi við Vísi í leikslok. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×