Erlent

Umdeildur sirkus skellir í lás

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sirkusinn hefur verið starfandi í 146 ár en miðasala hríðféll eftir að hætt var að notast við fíla í sýningunni.
Sirkusinn hefur verið starfandi í 146 ár en miðasala hríðféll eftir að hætt var að notast við fíla í sýningunni. Vísir/Getty
Eigendur Ringling Bros. and Barnum & Bailey sirkussins hafa tilkynnt að þeirra síðasta sýning verði í maí á þessu ári. Sirkusinn hefur verið starfandi í 146 ár en miðasala hríðféll eftir að sirkusinn hætti að notast við fíla í sýningunni.

Sjá einnig: Hætta notkun fíla í sirkússýningum sínum

„Eftir mikla umhugsun höfum ég og og fjölskylda mín tekið þá erfiðu viðskiptaákvörðun að Ringling Bros. and Barnum & Bailey muni halda sína síðustu sýningu í maí á þessu ári,“ segir í tilkynningu frá Kenneth Feld, framkvæmdastjóri Feld Entertainment.

„Miðasala var á undanhaldi en eftir að fílarnir voru teknir úr sýningunni hefur hún hríðfallið,“ sagði hann. „Þetta, ásamt því að sýningin er dýr í rekstri, leiddi til þess að rekstur sirkussins er ekki lengur sjálfbær.“

Sögu sirkussins má rekja aftur til borgarastríðsins í Bandaríkjunum. Þá var hann eins konar blanda af dýragarði, safni og „freak show.“ Árið 1882 keypti P.T. Barnum asíufíl að nafni Júmbó til Bandaríkjanna og varð aðal aðdráttarafl sýningarinnar. Fyrirtækið hætti notkun fíla í maí á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×