Erlent

Um tvö hundruð í haldi eftir árásina í Lahore

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð í Gulshan-i-Iqbal garðinum í Lahore.
Árásin var gerð í Gulshan-i-Iqbal garðinum í Lahore. Vísir/AFP
Lögregla í Pakistan er með um tvö hundruð manns í haldi í tengslum við rannsókn á sprengjuárásinni í Lahore á sunnudag þar sem að minnsta kosti sjötíu manns fórust.

Rana Sanaullah, dómsmálaráðherra Punjab, segir að alls hafi um fimm þúsund manns verið yfirheyrðir í aðgerðum yfirvalda sem beinast gegn hryðjuverkamönnum í landinu.

Hryðjuverkahópurinn Jamaat-ul-Ahrar, sem hefur tengsl við Talibana, hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum sem beindist að kristnum sem voru að halda upp á páskahátíðina. Að sögn BBC segir að flestir þeirra sem létust hafi þó verið múslimar.

Árásin var gerð í Gulshan-i-Iqbal garðinum í borginni. Að minnsta kosti 29 hinna látnu voru börn, en á fjórða hundrað særðust í árásinni.

Sanaullah segir að yfirvöld hafi gert húsleit á 56 stöðum í samhæfðum aðgerðum, þar sem hald var lagt á mikið magn vopna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×