Innlent

Um átta þúsund á Austurvelli og gríðarmikil umferð í miðborgina

Bjarki Ármannsson skrifar
Varðstjóri hjá lögreglunni segist aldrei hafa séð jafnmikinn fjölda safnast saman á svo skömmum tíma.
Varðstjóri hjá lögreglunni segist aldrei hafa séð jafnmikinn fjölda safnast saman á svo skömmum tíma. Vísir/Ernir
Um átta þúsund manns eru nú samankomin á Austurvelli þar sem þess er krafist að ríkisstjórnin segi af sér og enn streymir fólk á torgið. Fylgjast má með mótmælunum í beinni á Vísi hér.

Arnar Rúnar Marteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu upp úr klukkan fimm að hann hefði aldrei séð jafnmikinn fjölda safnast saman á svo skömmum tíma.

Umferð í átt að miðborg Reykjavíkur er gríðarlega mikil og til að mynda er bíll við bíl á Sæbrautinni frá Kringlumýrarbraut. Lögregla er ekki að stýra bílaumferð.

Mikill hiti er í mannskapnum en Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, sem stýrir aðgerðum lögreglu á vettvangi, segir allt hafa farið friðsællega fram fyrsta hálftímann.

„Fólk er bara að tromma, eins og búist var við,“ segir Ásgeir. „Við vonum það innilega að þetta fari allt friðsællega fram.“

Ernir Eyjólfsson og Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndarar Fréttablaðsins og Vísis, mættu á Austurvöll og fönguðu stemninguna. Myndirnar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×