Erlent

Tvö börn greinast með lömunarveiki í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
WHO hefur unnið að bólusetningum gegn mænusótt eða lömunarveiki víðs vegar um heim síðustu ár.
WHO hefur unnið að bólusetningum gegn mænusótt eða lömunarveiki víðs vegar um heim síðustu ár. Vísir/Getty
Tvö tilfelli lömunarveiki hafa komið upp í suðvesturhluta Úkraínu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO staðfestir að tilfellin séu þau fyrstu í landinu frá 1996 og þau fyrstu í Evrópu frá 2010.

Um er að ræða tvö börn – eitt fjögurra ára og annað tíu mánaða, en talsmaður WHO segir Úkraínumenn vera í sérstakri smithættu vegna ónægra bólusetninga í landinu.

Í frétt SVT kemur fram að á síðasta ári hafi einungis helmingur úkraínskra barna verið ónæm fyrir lömunarveiki og öðrum sjúkdómum sem koma megi í veg fyrir með bólusetningum.

Hætta á útbreiðslu í landinu er talin vera mikil að dómi WHO. Hætta á útbreiðslu í nágrannalöndunum Rúmeníu, Póllandi, Ungverjalandi og Slóvakíu er hins vegar talin lítil.

Lömunarveiki eða mænusótt er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Nánar má lesa um sjúkdóminn á vef landlæknis.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×